Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 16:31:21 (471)

2003-10-13 16:31:21# 130. lþ. 9.4 fundur 5. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Sigurjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé rætt mjög mikilvægt mál fyrir íslensku þjóðina. Við í Frjálslynda flokknum teljum að frjáls viðskipti, þar sem eðlileg og virk samkeppni ráði, sé þjóðhagslega hagkvæm. Hún leiðir almennt til hagkvæmari reksturs og framþróunar atvinnuveganna. Sjávarútvegurinn er, eins og fram hefur komið, mikilvægasta gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin en yfir 60% af útflutningsverðmætum skapast af sjávarfangi.

Einn af megingöllum núverandi gjafakvótakerfis er að það kemur nær algjörlega í veg fyrir nýliðun í útgerð. Þeir sem eru fyrir í greininni og hafa fengið gefins kvóta hafa mikið forskot á nýliða sem þurfa að greiða margfalda ársveltu fyrir það eitt að fá að hefja rekstur. Hinn kosturinn fyrir nýliða er að gerast leiguliðar stórgreifa og það er mjög aumt hlutskipti.

Aukin verðmæti sjávarafla má einkum rekja til þess að það hefur orðið hækkun á mörkuðum erlendis. Ég tel að ef samkeppnisstaða landvinnslu og sjóvinnslu væri t.d. jöfnuð gæti íslenska þjóðin stóraukið gjaldeyristekjur sínar af sjávarútvegi.

Almennt er viðurkennt að atvinnugreinum er nauðsyn að nýir aðilar eigi kost á að spreyta sig. Aðgengi nýliða er ekki einungis réttindamál, heldur skiptir atvinnuvegina miklu máli. Ég sé engin rök fyrir því að nýliðar séu ekki jafnmikilvægir í sjávarútvegi og í öðrum greinum atvinnulífsins. Nýliðar stuðla að framförum, einkum á tvennan hátt, annars vegar með því að koma inn með nýjar hugmyndir og hins vegar að setja þrýsting á þá sem fyrir eru í greininni um að bæta sig. Ég er fullviss um að fiskvinnslunni er nauðsyn á því að nýir aðilar geti komið inn og spreytt sig.

Merki um að atvinnugrein sé hnignandi eru oft talin vera lækkandi menntunarstig í atvinnugreininni, harðnandi samskipti atvinnurekenda og verkalýðsfélaga, minnkandi trú á samkeppni í greininni og aukin stjórnvaldsvernd fyrir öflug fyrirtæki. Þetta sjáum við allt í sjávarútvegi. Æ færri leggja í nám tengt sjávarútvegi og fiskvinnslu og er nú svo komið, þótt ótrúlegt sé, að það er búið að leggja niður alla fiskvinnsluskóla á landinu. Útgerðarmenn hafa ekki lengur fyrir því að semja við sjómenn heldur bíða þolinmóðir eftir lagasetningu stjórnvalda.

Eins og framsögumenn röktu kemur kvótakerfið ekki einungis í veg fyrir eðlilega samkeppni í útgerð heldur einnig að fiskvinnslur búi við sambærilega samkeppni. Þær sem ráða yfir gjafakvóta fá fiskinn inn í vinnsluna á lægra verði en þær sem verða að kaupa á mörkuðum. Þetta girðir ekki einungis fyrir nýliðun í útgerð heldur einnig fyrir eðlilega samkeppnisstöðu og nýliðun í fiskvinnslu. Með því að koma á fjárhagslegum aðskilnaði í rekstri útgerðar og vinnslu væri hinn gríðarlegi aðstöðumunur þeirra jafnaður, annars vegar þeirra sem reka fiskvinnslu án útgerðar og þeirra sem reka fiskvinnslu með útgerð og hafa komist yfir gjafakvóta.

Ungir sjálfstæðismenn, sem gefa sig stundum út fyrir að vera fylgjandi eðlilegum markaðslögmálum og að samkeppni ráði í atvinnurekstri, ættu að styðja þessa þáltill. þar sem hún gerir ráð fyrir að ungir nýliðar geti tekið með fullum krafti þátt í einni mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Eins og ég rakti áður eiga menn ekki að vera hræddir við að fá nýliða inn í greinina heldur er sjávarútveginum eins og öðrum atvinnuvegum nauðsyn að fá nýtt blóð í reksturinn. Það sætir því furðu að sjálfstæðismenn hafi lýst sig andsnúna þessum aðskilnaði og í raun sýna þeir þessu máli mjög lítinn áhuga.

Snemma á árinu setti hæstv. sjútvrh. á stofn sjóð til þess að auka virði íslenskra sjávarafurða en ætlað er að verja um 300 millj. árlega í þennan opinbera sjóð til að styrkja rannsóknir og þróunarstarf. Ekki ætla ég að mæla á móti rannsóknar- og þróunarstarfi en ég hefði þó talið miklum mun skjótari og áhrifaríkari aðgerð að tryggja eðlilega og sanngjarna samkeppni í fiskvinnslunni til að auka virði sjávarútvegsins. Ef samkeppnisaðstaðan í fiskvinnslunni væri eðlileg mundi það leiða til þess að vel reknar fiskvinnslur yrðu ofan á en eins og staðan er nú er það ekki endilega raunin, heldur skiptir ekki minna máli fyrir rekstur fiskvinnslu að vera í tengslum við útgerð til þess að fá fiskinn á lægra verði til vinnslu.

Virðulegi forseti. Ég er einnig sannfærður um að lækkun flutningskostnaðar og fjárhagslegur aðskilnaður veiða og fiskvinnslu mundi milda lamandi áhrif þess þegar kvóti er seldur burt úr byggðarlögum. Ég er að því leytinu til mjög ósammála hv. þm. Hjálmari Árnasyni sem taldi að það leiddi til enn frekari hnignunar byggðanna.

Eins og staðan er nú hringinn í kringum landið eru bæjum sem misst hafa aflaheimildir allar bjargir bannaðar. Ef fiskvinnslur á Seyðisfirði, Bíldudal, Sandgerði og fleiri stöðum sem misst hafa veiðiheimildir gætu nálgast hráefni á sambærilegu verði og vinnslur sem tengdar eru útgerð væri þeim gert auðveldara að halda áfram fiskvinnslu þótt kvóti væri seldur burtu úr byggðarlaginu. Þeir sem hafa á annað borð trú á markaðslögmálum ættu að styðja þessa þáltill. Við í Frjálslynda flokknum höfum trú á að markaðslögmál eigi að ráða í atvinnuvegum landsmanna. Við viljum hafa sanngjarnar leikreglur.