Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 16:38:00 (472)

2003-10-13 16:38:00# 130. lþ. 9.4 fundur 5. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Þessi tillaga til þál. um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri útgerðar og vinnslu er svo sem eitt sjónarmiðið inn í umræðuna um fiskvinnslu og stjórn fiskveiða. Það sem vakir fyrir hv. flm. hér, að því er virðist, er að tryggja að á markað fari stór hluti af þeim fiski sem kemur að landi og það sé skilið fjárhagslega á milli útgerðar og fiskvinnslu.

Virðulegi forseti. Þessi sjónarmið þurfa ekki endilega að fara saman við þau markmið að tryggja fiskvinnslunni stöðugt hráefni. Ef við hugsum okkur einungis að skilja fjárhagslega að rekstur á útgerð og fiskvinnslu er hægt að gera það innan fyrirtækisins sem þýðir ekki endilega að meiri fiskur fari á markað í sjálfu sér. Þessi þáltill., eins og hún lítur hér út, lýtur því í rauninni bara að þessum fjárhagslega aðskilnaði. Ég get ekki séð að það í sjálfu sér sé neitt stórmarkmið þó að vafalaust megi ná einhverjum hluta af markmiðum frv. í að tryggja það að verðmyndun á fiski upp úr sjó fylgi því sem gerist á mörkuðum og sé þannig fært í bókhaldinu. Þarna er fyrst og fremst um bókhaldslegt atriði að ræða og kemur minna sjávarútvegsstefnunni sjálfri við sem slíkri. Þetta vil ég draga hér fram.

Ég skil hins vegar, og okkar flokkur, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð styður það, ef menn vilja tryggja að ákveðið magn af veiddum fiski sé boðið hér á markaði til þess að viðhalda þeirri vinnslu sem treystir á þennan fisk. Þá þarf að vera einhver stöðugleiki í því kerfi. Það er erfitt að vera með kerfi sem býður fisk á markað bara þegar ákveðið verðástand ríkir, ákveðin aflabrögð eru í gangi eða einhverjar slíkar ytri aðstæður en svo þegar þær aðstæður snúast við er ekkert eða takmarkað magn af fiski á markaði.

Mér fyndist vera sjónarmið inn í þessa umræðu að skylda fyrirtæki til þess að leggja alltaf ákveðinn hluta af afla sínum á markað þannig að það væri nokkurn veginn jafnt hlutfallslegt framboð af fiski á markaði. Þau fiskvinnslufyrirtæki sem treysta á fisk á mörkuðum ættu að geta gengið að sambærilegu rekstraröryggi og aðrar fiskvinnslur í landinu. Mér finnst að þetta sjónarmið þyrfti þá að koma inn í þessa umræðu því að ég er alveg sammála því sjónarmiði að það þarf að tryggja rekstraröryggi þeirra fiskvinnslna sem treysta á að kaupa fisk á mörkuðum en eru ekki með eigin útgerð.

Málið er kannski miklu frekar samt það að það þarf gjörsamlega kerfisbreytingu á allri löggjöf og fyrirkomulagi um stjórn fiskveiða. Við heyrum það þessa dagana, og var rætt hér í utandagskrárumræðu áðan, hvernig öll byggðarlög sem reiða sig á fisk, fiskvinnslu og sjávarútveg eru í uppnámi þessa dagana, ekki aðeins hin minni byggðarlög sem við höfum haft sérstakar áhyggjur af, heldur einnig hin stærri. Kerfið sjálft felur í sér þetta gríðarlega óöryggi. Að mínu mati er óöryggi kerfisins orðið með þeim hætti að það truflar alla aukna hagkvæmni og alla frekari nálgun í að auka arðsemi þessarar greinar. Atvinnugrein sem er svo mikilvæg fyrir þjóðina verður að búa við öryggi, og það öryggi hefur hún ekki nú. Það fyrirkomulag sem leyfir frjálst framsal á aflaheimildum, eins og núverandi kerfi gerir, það fyrirkomulag sem tryggir í engu atvinnu eða búsetu í sjávarbyggðunum er ekki þessum atvinnuvegi þénugt. Því þarf að breyta.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt fram mjög ítarlegar tillögur um hvernig eigi að vinda sig út úr því kerfi sem við búum við nú, þannig samt að engar alvarlegar kollsteypur verði hjá þeim fyrirtækjum sem búa við það. Jafnframt vinnum við okkur á ákveðnum tíma inn í það kerfi að hluti af aflaheimildum verði byggðatengdur. Það hjálpar lítið að vera með línuívilnun eða línutvöföldun á aflaheimildir sem hægt er síðan að selja hæstbjóðanda út úr byggðarlaginu. Hverjar þær aðgerðir sem grípa þarf til nú til að treysta stöðu þessa atvinnuvegar og treysta atvinnu í byggðunum verða að lúta að byggðatengingu, bæði á löndun á afla og líka á vinnslu á aflanum á viðkomandi svæði.

Annars erum við bara að færa okkur enn þá lengra inn í þennan götótta sekk eða þetta hálfbotnlausa fen sem fiskveiðistjórnarkerfið nú er. Og við erum kannski líka að drepa málunum á dreif með því að koma ekki bara beint að kjarna málsins.

Herra forseti. Í Fréttablaðinu í gær var einmitt rædd staða fiskvinnslunnar og sjávarútvegsins. Þar er vakin athygli á því að sjóflutningar á ferskum fiski á erlendan markað eru kannski það sem koma skal. Til þess að efla megi ferskfisksútflutninginn hér á landi þarf að efla dagróðraflotann. Sá floti þarf líka að eiga stutt í land til þess að geta skilað fiskinum ferskum á markað. Einmitt kannski í gegnum þessa breyttu mynd í sjávarútveginum og fiskvinnslunni sjáum við aukna möguleika og hlutverk þessara fiskvinnslustaða, þessara litlu sjávarbyggða vítt og breitt um landið, og ættum að huga mjög ákveðið að.