Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 16:50:16 (475)

2003-10-13 16:50:16# 130. lþ. 9.4 fundur 5. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[16:50]

Mörður Árnason (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef kannski ekki orðað spurningu mína nógu skýrt. Hún var ósköp einfaldlega um það, vegna umkvörtunarefnis hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að þetta frv. gangi ekki nógu langt, hvort hann styðji hina ítarlegri gerð slíkra frumvarpa, þ.e. um aðskilnað veiða og vinnslu.

Ég held að hvað sem því líður hljóti menn að taka undir þetta frv. sem fjallar um að þetta kerfi sé gert gegnsætt þannig að menn sjái hvernig þessu er háttað. Um það hafa verið miklar sögur, flestar held ég því miður sannar, að menn hagi þessu eins og þeim sýnist, hvort sem það er útgerðarvængurinn eða fiskvinnsluvængurinn.

En það sem við þurfum að fá að vita núna, hæstv. forseti, er það hvort hv. þm. og hans flokkur styður þetta sjónarmið um aðskilnað veiða og vinnslu, þannig að allur fiskur fari á markað.