Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 16:51:13 (476)

2003-10-13 16:51:13# 130. lþ. 9.4 fundur 5. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[16:51]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Málið sem snýr að útgerðinni og fiskvinnslunni í landinu er að það þarf að breyta kerfinu. Innan brenglaðs kerfis geta menn hugsanlega séð eitthvað til bóta í einhverjum þáttum. En stærsta málið er að það þarf að breyta þessu kerfi og sú breyting verður að ná fram þannig að það verði aukin byggðatenging, að fólkið í landi, fólkið í sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið hafi meira um ráðstöfun þessara auðlinda og atvinnutækifæra að segja og hafi meira ákvörðunarvald um hvað gerist. Um það snýst málið. Aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu getur kannski verið nauðsynlegur hjá ýmsum stórfyrirtækjum, ég get alveg tekið undir það.

En af því hv. þm. spyr beint um það tel ég að litlar útgerðir, þar sem er einyrkjaútgerð og einyrkjafiskvinnsla, þar eigi þessi ráðstöfun í sjálfu sér ekki heima. Ég geri mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að hv. þm. og skoðanir hans flokks eru að þetta eigi allt að fara á uppboðsmarkað, hvort sem það eru veiðiheimildir eða afli, og sá sem býður hæst fái, þá getur byggðatenging eða þau sjónarmið sem snúa að landverkafólki orðið út undan í þeirri stefnu.

En það held ég sé stóra málið í þessu öllu, hvernig megi tryggja bæði hagkvæma nýtingu auðlindarinnar á vistvænan hátt og jafnframt að tryggja fólkinu í landi, byggðinni á landinu, rétt til auðlindarinnar og nýtingar hennar.