Virðisaukaskattur

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 17:09:58 (478)

2003-10-13 17:09:58# 130. lþ. 9.5 fundur 6. mál: #A virðisaukaskattur# (matvæli) frv., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[17:09]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um að lækka virðisaukaskatt á matvælum niður í 7%. Það er tímanna tákn að þegar við ræðum hér skattalækkunarfrv. af þessu tagi sé ég að hér í salinn vantar þá hv. þm. sem skolaði inn á fjörur þingsins í vor, fyrst og fremst vegna þess að þeir voru svo harðir baráttumenn fyrir lægri sköttum. Og ég spyr, herra forseti: Hvar eru hinir ungu og vösku riddarar Sjálfstfl., fjórir talsins, sem hingað komu vegna þess að þeir töldu sig sérstaka baráttumenn fyrir lægri sköttum? Enginn þeirra er í salnum, herra forseti. Það má auðvitað spyrja: Hvar eru þingmenn Sjálfstfl. þessa dagana þegar verið er að tala um skatta? Staðreyndin er sú að hér er verið að flytja fyrsta skattalækkunarfrv. sem sést á þessu þingi. Og það er tímanna tákn að það er Samf. sem flytur þetta frv.

Það er ekkert mál, herra forseti, sem Samf. hefur lagt jafnþunga áherslu á hvað lífskjör varðar og einmitt það að lækka matarverð á Íslandi. Við höfum ítrekað flutt um það þingmál. Og ég rifja það upp, frú forseti, að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir flutti hér ákaflega gagnmerkt þingmál á síðasta þingi sem var samþykkt, það var um það að kanna orsakir fyrir háu matvælaverði hér á Íslandi samanborið við nágrannalöndin. Í þáltill. voru tiltekin Norðurlöndin og jafnframt Evrópusambandslöndin. Það er til marks um þann mikla áhuga sem spannst af þeirri umræðu að líklega ekkert þingmál naut jafnmikillar fjölmiðlaathygli á framanverðum síðasta vetri og einmitt það. Hið háa Alþingi samþykkti tillöguna.

Það er ákaflega sjaldgæft, frú forseti, að við þingmenn stjórnarandstöðunnar fáum með þeim hætti samþykkt mál en það sýndi þá samstöðu, frú forseti, sem um þetta mál ríkti hér á hinu háa Alþingi. Þess vegna var það líka fagnaðarefni þegar kom til kosninga að kosningabaráttan snerist að verulegu leyti um skatta og skattstefnu. Það var sérstaklega athyglisvert að tveir flokkar sem nutu mests fylgis í kosningunum, Samf. og Sjálfstfl., virtust vera sammála um að það bæri að fara þá leið að lækka virðisaukaskatt á matvælum úr 14% í 7%.

Þess vegna skýtur það skökku við, frú forseti, að þegar við komum nú til þings er engu líkara en að allur áhugi sjálfstæðismanna á því að lækka skatta sé gufaður upp. Þeir forustumenn Sjálfstfl. sem riðu um héruð, ekki bara mitt kjördæmi, heldur landið allt, og predikuðu nauðsyn þess að lækka skatta til þess að bæta lífskjör fólks sjást ekki í þessum sölum þegar verið er að ræða skattamál. Og það er skiljanlegt, frú forseti. Það er sjaldan sem nokkur flokkur hefur dottið jafnkirfilega á sinn óæðri enda í nokkrum málaflokki og Sjálfstfl. þessa dagana þegar skattamálin eru annars vegar. Minnumst þess að Sjálfstfl. háði kosningabaráttu sína með því að gefa loforð um að lækka skatta nærfellt um 30 milljarða brúttó. Og þegar allt var tekið til, frú forseti, má leiða rök að því að hugmyndir Sjálfstfl. um skattalækkanir hafi farið yfir 30 milljarða. Látum það vera þegar kosningum sleppti og ríkisstjórnin hélt áfram en þá kom hæstv. forsrh. og flutti stefnuræðu sína. Og obbinn af málefnapakkanum þar laut að lækkunum skatta.

Hæstv. forsrh. tíundaði það hvernig hann og ríkisstjórn hans hygðust lækka skatta um a.m.k. 20 milljarða á ári þegar yndi fram um kjörtímabilið. Frú forseti. Þegar við sáum síðan fjárlagafrv. og ýmis fylgifrv. þess kom í ljós að hugur virtist ekki fylgja máli. Þá var engu líkara en að hugmyndir Sjálfstfl. um að lækka skatta væru allar gufaðar upp. Hvað var það sem við sáum þá, frú forseti? Við sáum frv. á frv. ofan sem fólu í sér ekkert annað en skattahækkanir.

[17:15]

Þannig stendur allt á haus þegar Sjálfstfl. er annars vegar. Það er skiljanlegt, frú forseti, að enginn þingmaður Sjálfstfl. skuli staddur í þessum þingsal þegar um er að ræða mál sem getur ráðið úrslitum um afkomu margra peningalítilla fjölskyldna í landinu. Hvar eru þingmenn Sjálfstfl. þegar verið er að ræða skattalækkanir? Hvar eru riddararnir fjórir sem riðu hér um landið allt og lofuðu skattalækkunum með þeim árangri að þeir voru kjörnir á þing? Hvar eru hv. þm. Bjarni Benediktsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og hv. þm. Birgir Ármannsson? Allir þessir ungu þingmenn sem efalítið eiga glæsilega framtíð fyrir sér í þessum sölum byrja þingferil sinn á að láta ekki sjá sig þegar rætt er um þau mál sem þeir báru fram af miklu kappi í kosningabaráttunni. Hvað veldur því að ekki einn einasti þingmaður sjálfstæðismanna er við umræðu þegar verið er að ræða lækkun á virðisaukaskatti á matvælum?

Frú forseti. Kosningabaráttan snerist að töluverðu leyti um skatta og efnahagsmál. Þó nú séu ekki nema tvær vikur liðnar af þessum þingvetri og kjörtímabilið rétt að hefjast þá spái ég því að þetta kjörtímabil muni í málefnalegu tilliti að verulegu leyti snúast um efnahagsmál og skattalækkanir. Það er þess vegna sem miklu máli skiptir að fá afstöðu Sjálfstfl. fram í þessum efnum, sérstaklega þeirra sem hafa gert að sérstöku baráttumáli sínu að lækka skatt. Standa þeir með tillögu Samfylkingarinnar um að lækka virðisaukaskatt á matvælum úr 14% niður í 7%? Eða, frú forseti, munu þeir koma hingað og taka þátt í að svæfa þetta mikilvæga og brýna lífskjaramál?

Frú forseti. Sú tillaga sem Samf. leggur hér fyrir felur í sér að matarreikningur íslenskra heimila mun lækka um fimm og hálfan milljarð. Það skiptir máli að lækka matarverð. Það skiptir ekki síst máli fyrir barnafjölskyldur. Það skiptir máli fyrir alla þá sem ekki hafa mikið umleikis.

Það má fara ýmsar leiðir til þess að lækka skatta, frú forseti. Sjálfstfl. og Framsfl., sem góðu heilli er staddur hér við umræðuna, voru tiltölulega samferða um skattamál í kosningabaráttunni. Raunar var það þannig að Sjálfstfl. lagði fram stefnuna og Framsfl. blessaði og sagði amen eftir efninu. En báðir þessir flokkar töldu hagfelldast að fara þá leið að lækka skatthlutfall.

Frú forseti. Það er fólk á Íslandi sem hefur svo lágar tekjur að það borgar lítinn eða engan skatt af þeim. Lægra skatthlutfall gagnast ekki þeim sem eru mjög tekjulágir. Það er þess vegna sem jafnaðarmenn hafa kosið að fara aðra leið. Við erum þeirrar skoðunar að frekar eigi að verja fjármunum til að lækka virðisaukaskatt á mat og lækka þannig matarverð. Það kemur öllum til góða og hlutfallslega mest þeim sem hafa úr minnstu að spila. Oft er þar um að ræða, frú forseti, fólk sem þarf að verja töluverðum hluta af ráðstöfunarfé sínu til að kaupa brýnustu nauðþurftir, m.a. matvæli. Um þetta fólk eru jafnaðarmenn að hugsa. Það er þess vegna sem Samf. leggur mesta áherslu á þá tegund skattalækkana sem nýtist öllum. Engin skattalækkun nýtist öllum í landinu í jafnríkum mæli og þessi hugmynd Samfylkingarinnar gerir ráð fyrir, að lækka virðisaukaskatt á matvælum.

Við vitum öll að matvælaverð á Íslandi er allt of hátt, enda er það með því hæsta sem þekkist. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir upplýsti í greinargerð með sinni ágætu tillögu sem samþykkt var á þinginu í fyrra og ég hef þegar reifað, að norska hagstofan hefði gert könnun á matarverði á Norðurlöndunum og reyndar borið það saman við matarverð í ýmsum löndum Evrópusambandsins. Það voru ekki þægilegar staðreyndir sem þar komu í ljós. Þar birtist svart á hvítu að árið 2000 var matvælaverð hér á landi 69% hærra en í Evrópusambandslöndunum. Það var reyndar athyglisvert að í greinargerð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur kom líka fram að matvælaverð í Noregi var 62% hærra en í samanburðarlöndunum í Evrópusambandinu. Þetta dregur athyglina að þeirri staðreynd sem við þingmenn Samf. höfum verið ódeigir við að benda á, þ.e. nauðsyn þess að við Íslendingar íhugum í fullri alvöru að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Við þurfum að skoða allar leiðir sem færar eru til að bæta lífskjör á Íslandi. Það er ákaflega margt sem bendir til þess að spurningin um Evrópusambandið sé öðrum þræði spurning um bætt lífskjör. Það eru ekki aðeins vextir sem mundu að öllum líkindum lækka duglega hér á Íslandi ef við gætum samið okkur á þokkalegum kjörum inn í Evrópusambandið heldur benda þær upplýsingar sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir lagði fram í greinargerð sinni til þess að matvælaverð mundi lækka töluvert ef við Íslendingar yrðum aðilar að Evrópusambandinu. Hér er því um spurningu að ræða sem er meira en einnar messu virði að skoða til hlítar. Við samfylkingarmenn höfum í reynd svarað þessari spurningu fyrir okkur: Við erum Evrópuflokkur og höfum ekki farið í felur með það.

En það eru aðrar leiðir, frú forseti, sem hægt er að fara til að lækka matarverð. Sú tillaga sem hér liggur fyrir beinist að því. Hún felur í sér að hægt sé að fara leið skattalækkunar varðandi matvæli. Tillagan sem hér liggur fyrir er í fullu samræmi við áherslur Samf. í kosningabaráttunni á liðnum vetri. Þá var það eitt af okkar helstu baráttumálum að lækka matarverð með því að fara þessa leið. Við erum flokkurinn sem kom hingað í þessi salarkynni að loknum kosningum og við stöndum við það sem við sögðum í kosningunum.

Sjálfstæðismenn hlaupa í felur. Hæstv. fjmrh. kemur ekki til þessarar umræðu. Þeir hv. þingmenn sjálfstæðismanna sem gerðu sig mest gildandi í umræðunni um skattalækkanir og sóru þess dýran eið að berjast hér til a.m.k. síðasta blóðdropa til að lækka skatta eru ekki í þessum sal. Þeir taka ekki þátt í þessari umræðu. Ég spyr, frú forseti: Eru þessir ágætu menn í upphafi síns þingferils að dæma sig ómerka í umræðu af þessu tagi? Hvar eru hugsjónir hinna ungu manna sem börðust fyrir þessu í kosningabaráttunni? Ég lýsi eftir þeim, frú forseti.

Ég og við í Samf. erum þeirrar skoðunar að núna sé lag að fara þessa leið. Eins og menn muna frá því fyrir kosningar var því spáð af ýmsum hagvitsbrekkum að hér yrði miklu meiri þensla en í reynd hefur orðið. Staðreyndin er sú að sökum þess að náðst hefur samstaða um að ráðast í framkvæmdir sem ýta undir hagvöxt þá er margt sem bendir til að á næstu missirum og árum geti Ísland siglt inn í velsældarskeið sem hugsanlega á sér ekki sinn líka í lýðveldissögunni. Hugsanlegt er að hér verði meiri hagvöxtur samhliða minni þenslu en menn töldu áður. En forsendan fyrir því, frú forseti, er hins vegar að okkur takist að sýna samstöðu á stjórnmálasviðinu og að samstaða ríki milli ólíkra afla á vinnumarkaði svo takist að sigla í gegnum þann ólgusjó þenslu sem hugsanlega bíður okkar undir lok kjörtímabilsins. Ef það tekst --- Samf. hefur lýst því af mikilli ábyrgð að hún muni fyrir sitt leyti stuðla að því --- er líklegt að við getum ráðist í að fjármagna a.m.k. drjúgan hluta af þeim félagslegu úrbótum sem verkalýðshreyfingin, ASÍ og BSRB, hafa lagt til auk þess að að hrinda í framkvæmd þeim hóflegu skattalækkunum sem Samf. og á stundum aðrir flokkar hafa lagt til. Það er líka hugsanlegt, ef vel tekst til, að okkur takist að bæta töluvert stöðu sveitarfélaga í fjárkreppu. Þau eru aðþrengd af ofríki núverandi ríkisstjórnar. Þannig mætti undirbúa frekari flutning verkefna til þeirra á því kjörtímabili er Samf. tekur við taumunum hér.

Frú forseti. Hér er Samf. að leggja fram hugmyndir sínar að skattalækkunum. Þær felast í að fara leið sem allir hafa hag af, ekki síst þeir sem hafa minnst umleikis. Við höfum lagt þunga áherslu á að lækka matarverð. Við höfum lagt mikla áherslu á að lækka skatta hins opinbera af matvælum. Þess vegna leggjum við fram þessar tillögur. En það er eftirtektarvert og ég hlýt að undirstrika það í lok þessarar umræðu að hér hefur enginn þingmaður Sjálfstfl. sést. Allir þeir þingmenn sjálfstæðismanna sem töluðu hvað hæst um skattalækkanir í kosningabaráttunni eru horfnir, gufaðir upp eins og dögg fyrir sólu.