Virðisaukaskattur

Mánudaginn 13. október 2003, kl. 18:01:14 (482)

2003-10-13 18:01:14# 130. lþ. 9.5 fundur 6. mál: #A virðisaukaskattur# (matvæli) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hygg að fáir mæli því í mót að við hér á Íslandi búum við hvað hæsta matvælaverð í Evrópu, hvað hæstu vexti og hvað hæstan húsnæðiskostnað. Auðvitað er það svo að hátt matvælaverð og mikill húsnæðiskostnaður rýrir mjög kjör heimilanna. Því held ég að það sé ekkert eitt mál sem fyrir þessu þingi liggur sem skiptir eins miklu máli í að lækka framfærslukostnað heimilanna og það frv. sem við ræðum hér.

Ég vil líka nefna til sögunnar, af því að erum tala um hvað skilar sér best í að bæta kjör heimilanna, ekki síst láglaunaheimila, að annað mál liggur líka fyrir þinginu sem við höfum margoft flutt, og það er að hætta að skattleggja fjárhagsaðstoð heimilanna. Fjárhagsaðstoð sem sveitarfélögin veita er raunverulega neyðaraðstoð og það er auðvitað til skammar að slík neyðaraðstoð skuli skattlögð og að ríkið hafi tekjur af fólki sem þarf að leita til sveitarfélaganna til þess að eiga fyrir brýnustu nauðsynjum. Þetta er eitt af þeim málum sem við leggjum mikla áherslu á að nái í gegn hér á þessu þingi.

Það má auðvitað margt tína til þegar þetta mál er rætt. Ég held að það hafi verið mikið þarfaverk þegar flutt var tillaga undir forustu Rannveigar Guðmundsdóttur sem leiddi til þess að nú er verið að skoða orsakir fyrir háu matvælaverði. Það hefur komið fram hér að með því að fara þá leið sem við tölum hér fyrir megi lækka matarverð um 30%. Það vegur mjög þungt í vísitölunni eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi áðan, þ.e. um 15%. Það er auðvitað ekki vansalaust og það hlýtur að vera verkefni allra flokka hér á þingi að taka sig saman um það að lækka hér matvælaverð þegar komið hefur í ljós að árið 2000 var matvælaverð 69% hærra hér en meðaltal 15 landa Evrópusambandsins. Í þeim samanburði kom fram að brauðvörur væru 80% dýrari og kjötvörur 74% dýrari á Íslandi en í þeim 15 löndum þar sem þessar vörur voru mældar hvað varðar þessa þætti. Maður hlýtur að spyrja sig af hverju þetta stafi.

Ég býst við að ein af skýringunum sem við munum fá fram þegar þessi úttekt liggur fyrir sé að hér er mikil fákeppni sem er orðið mjög brýnt að taka á. Ég vil koma að því síðar í máli mínu.

Þegar við skoðum útgjöld fjölskyldunnar vegna matvæla er hægt að taka ýmsan samanburð. Ég harma það að með þáltill. sem var samþykkt hér fyrir tveimur árum, sem við þingmenn Samf. fluttum, um að gerður yrði neyslustaðall hefur lítið eða ekkert verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt þeirri tillögu átti að gera könnun á notkun neysluviðmiðana í nágrannalöndum Íslendinga við ákvarðanir er lúta að fjárhæðum bóta og styrkja í velferðarkerfinu um mat á greiðslugetu við innheimtu vangoldinna gjalda og meðlagsgreiðslna og við ákvarðanatöku um lánveitingar úr opinberum sjóðum. Síðan átti að skoða hvort ekki væri ástæða til að samræma slíkar neysluviðmiðanir hér á landi, notkun þeirra og aðferðir við gerð þeirra.

Ég nefni það að Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur margítrekað kallað eftir slíku neysluviðmiði sem ekki er til hér en þekkist víðast hvar í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ráðgjafarstofan hefur útbúið sínar eigin neysluviðmiðanir sem eru að norrænni fyrirmynd og aðlagað þær íslenskum aðstæðum. Hún hefur gert það með því að byggja fjárhæðirnar á heimilisbókhaldi 30 fjölskyldna í landinu yfir þriggja mánaða tímabil. Útgjöld þeirra voru síðan skoðuð þannig að einungis var tekið tillit til nauðsynlegra útgjalda að mati Ráðgjafarastofu. Um er að ræða neysluviðmið og útgjaldaviðmið sem Ráðgjafarstofan notar fyrir fólk sem er í miklum greiðsluerfiðleikum. Hér er fyrst og fremst um að ræða neysluviðmið sem er ætlað að vari einungis í stuttan tíma.

Í því neysluviðmiði sem notað er hjá Ráðgjafarstofu heimilanna er matur í flestum tilvikum upp undir helmingur af neysluviðmiðinu. Ef við tökum einstakling var neysluviðmið um 60 þús. kr. og matur og hreinlætisvörur voru af því um 27.500. Ef við skoðum hjón var neysluviðmiðið samtals, sem ég vil ítreka að er mjög lágt, um 82.900 og þar af var matur rösklega helmingur, eða 42.700.

Sama gildir um hjón með börn. Við getum tekið hjón með tvö börn, þá var neysluviðmið 120.500 og matur og hreinlætisvörur af því voru um helmingur, eða 64.400 kr., í þessum nauðsynlegustu útgjöldum heimilanna. Það er sama hvaða fjölskyldustærð er hér tekin, þegar skoðað er neysluviðmið Ráðgjafarstofu er maturinn og hreinlætisvaran alltaf um helmingur af þeim útgjöldum sem Ráðgjafarstofa heimilanna miðar við.

Ég ræddi hér um háan húsnæðiskostnað sem ég hygg að sé sá hæsti sem þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er auðvitað partur af slæmum kjörum margra láglaunafjölskyldna hve hár húsnæðiskostnaðurinn er. Síðast þegar ég skoðaði það var t.d. leiguverð á íbúð um eitt þús. kr. á hvern fermetra þannig að við getum ímyndað okkur að vel rösklega helmingur eða kannski upp undir 2/3 af innkomu heimilanna fari í húsnæðiskostnað. Sá kostnaður hefur verulega hækkað síðan þessi ríkisstjórn tók við á árinu 1995, það er full ástæða til að nefna það.

Þegar við lítum á framfærslumöguleika heimila sem eru með lágar tekjur er það auðvitað vaxandi áhyggjuefni hve mikið er orðið um það að fólk þurfi að brúa bilið til þess að endar nái saman, fyrir mánaðamót t.d., með miklum neyslu- og yfirdráttarlánum í bönkum. Það er mikið áhyggjuefni og sú tillaga sem við hér stöndum að, þingmenn Samf., er leið til þess að lækka verulega framfærslukostnað heimilanna og þar með að koma í veg fyrir það eða a.m.k. draga úr því að yfirdráttarlán þurfi að nota sem neyslulán.

Ég nefndi hér fákeppni á markaðnum sem eina meginskýringu á því hvers vegna verðlag væri hér hátt. Það er full ástæða til að rifja upp þá skýrslu Samkeppnisstofnunar sem kom út í maí 2001 um matvörumarkaðinn en þar var skoðuð verðlagsþróun í smásölu á árunum 1996--2000.

Ég ætla að fá að vitna í þessa skýrslu, með leyfi hæstv. forseta, en þar kemur eftirfarandi fram:

,,Smásöluálagning í matvöruverslunum er eins og vænta má mishá eftir vöruflokkum. Það vekur athygli að ýmsar vörur sem hafa mikinn veltuhraða (en það dregur úr kostnaði við birgðahald o.fl.), eins og t.d. brauð og egg, skuli bera að meðaltali 50--70% smásöluálagningu, þegar tillit hefur verið tekið til þess afsláttar sem framleiðendur veita matvöruverslunum.``

Síðan kemur nokkuð fram sem ástæða er til að halda til haga við þessa umræðu, nefnilega það að fákeppni er ein af þeim skýringum sem hljóta að koma upp á borðið þegar sú úttekt liggur fyrir sem nú er verið að vinna að í samræmi við þáltill. þingmanna Samf. Hér segir orðrétt í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Um 2/3 hlutar smásölumarkaðarins eru nú á hendi tveggja fyrirtækja. Til samanburðar þá réðu tvö stærstu fyrirtækin yfir 45% hlut smásölumarkaðarins árið 1996. Samþjöppun í innkaupum matvöruverslana er enn þá meiri. Ætla má að 80--90% af innkaupum matvöruverslana á dósa- og pakkavöru fari í gegnum tvö birgðahús sem langflestar matvöruverslanirnar hafa tengsl við.``

Herra forseti. Það segir auðvitað sína sögu þegar hér kemur fram að 2/3 hlutar smásölumarkaðarins eru á hendi tveggja fyrirtækja og að ætla megi að 80--90% af innkaupum matvöruverslana á dósa- og pakkavöru fari í gegnum tvö birgðahús. Þetta er auðvitað lýsandi skýring á því að hér er um fákeppni að ræða á þessum markaði sem verður að taka á.

Þann 9. okt. kom einmitt fram í Morgunblaðinu, hæstv. forseti, að verðhækkun birgja til verslana hafi verið allt að 10%. Með leyfi forseta, kemur þar fram:

,,Verð á innfluttum mat- og sérvörum frá heildsölum og birgjum hefur verið að hækka til matvöruverslana síðustu vikur. Algengust hefur hækkunin verið frá 4--6% en dæmi eru um allt að 10% hækkun, samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið aflaði sér í gær hjá nokkrum heildsölum og verslunum.``

Þetta fer auðvitað beint út í matvælaverðið, herra forseti, og rýrir kjör heimilanna.

Ég vil minna á að í þessari skýrslu sem ég var að lesa upp frá maí 2001 um matvörumarkaðinn kemur fram hjá Samkeppnisstofnun að hún muni fara af stað með mál í því skyni að uppræta hugsanleg brot á samkeppnislögum, og hér segir orðrétt:

,,Í því felst rannsókn á því hvort samningar og samningsskilmálar á milli einstakra verslunarkeðja, birgðahúsa eða matvöruverslana annars vegar og birgja hins vegar feli í sér ákvæði sem eru skaðleg samkeppni og fari gegn samkeppnislögum, þar með talið vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.``

Ég held, herra forseti, að það hljóti að vera viðfangsefni Alþingis, með tilliti til þessa háa vöruverðs sem við ræðum hér, með tilliti til þess sem fram hefur komið varðandi olíufélögin, með tilliti til þess sem fram hefur komið varðandi tryggingafélögin og tryggingamarkaðinn, með tilliti til þess sem fram hefur komið varðandi grænmetismarkaðinn og þá fákeppni sem þar ríkir, að setjast yfir það að bæta alla aðstöðu Samkeppnisstofnunar. Ég er sannfærð um að það muni skila sér margfalt aftur í því að bæta kjör neytenda og lækka hér vöruverð, lækka það okur sem viðgengst á tryggingamarkaðnum og hjá olíufélögunum. Þegar fram hefur komið að það taki nokkur ár að rannsaka t.d. tryggingafélögin hlýtur að vera full ástæða til þess. Ef Samkeppnisstofnun þarf að taka mörg ár í það og ræður ekki við öll þau viðfangsefni sem hún er með á sinni könnu er brýnt að búa hér betur að henni. Því vildi ég halda til haga, herra forseti, í þessari umræðu. Það væri verðugt verkefni nú við þessa fjárlagaafgreiðslu, þegar við erum með svona mörg mál á borðinu sem sanna það að við þurfum að búa enn betur að Samkeppnisstofnun, að það yrði gert við afgreiðslu fjárlaga.

Svo að ég vitni aftur í þessa skýrslu kemur þar fram, með leyfi forseta:

,,Fullyrt hefur verið að verslunarkeðjur reyni að beita birgja þrýstingi til að hafa áhrif á að verð hjá öðrum verslunum hækki.`` --- Til að hafa áhrif á að verð hjá öðrum verslunum hækki. --- ,,Einnig hafi þeir verið beittir þrýstingi til að koma í veg fyrir verðlækkun í smásölu þegar innkaupsverð verslana hafi lækkað. Ef rétt reynist er að mati Samkeppnisstofnunar verið að setja samkeppni á markaðnum alvarlegar hömlur.``

[18:15]

Í lok þessarar skýrslu segir, með leyfi forseta:

,,Hækkun á smásöluverði á síðustu árum í matvöruverslun umfram verðhækkun frá birgjum gefur ástæðu til að ætla að dregið hafi úr samkeppni í smásölunni.`` --- Samþjöppun í formi samruna er væntanlega helsta orsökin fyrir minni samkeppni.

Herra forseti. Ég veit út af fyrir sig ekki hvernig farið var með þessa skýrslu Samkeppnisstofnunar um matvörumarkaðinn sem var lögð fram í maí 2001. Það væri auðvitað full ástæða til að hæstv. viðskrh. skýrði fyrir þingheimi hvað hefur verið gert í kjölfar þess að þessi skýrsla var lögð fram fyrir liðlega tveimur árum. Ég mun hugleiða hvort ekki sé ástæða til að leggja slíkar fyrirspurnir fyrir hæstv. ráðherra sem ekki er viðstödd þessa umræðu.

Ég vil líka nefna, herra forseti, að mér finnst full ástæða til að verðmyndun verði skoðuð nánar, reglubundið og oftar, þannig að gera megi grein fyrir verðmyndun, t.d. á landbúnaðarvörum, hver samsetningin á verðmynduninni er, hve mikið fer til bænda, sem fá minnstan hlutann af þessu, hve mikið fer til milliliða, hve mikið til dreifingaraðila og hve mikið til framleiðenda.

Ég man ekki betur en að t.d. í Frakklandi sé skylda að setja slíka merkingu á vörur þannig að fólk geri sér grein fyrir samsetningunni í verðinu. Ég tel fulla ástæðu til að skoða hvort ekki sé ástæða til þess að gera slíkt hið sama hér á landi. Ég man ekki betur en ég hafi á fyrri þingum nefnt þetta við hæstv. landbrh. sem ekki tók því fjarri.

Maður veltir oft fyrir sér hve mikil álagningin í smásöluversluninni er. Það er ástæða til að slíkar reglubundnar kannanir séu gerðar. Ég man ekki betur en hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hafi einmitt lagt til að gerður yrði reglulegur samanburður á tiltekinni matarkörfu, innan lands og síðan samanburður við Norðurlönd og lönd Evrópusambandsins. Það er allt of lítið um að slíkt sé gert. Á vegum Samkeppnisstofnunar er t.d. ekkert í gangi að því er þennan þátt varðar. Alþýðusambandið hefur verið með slíka úttekt og könnun á sínum snærum en þetta þarf að gera miklu oftar en gert hefur verið.

Það er ástæða til að nefna að þegar við erum að tala um hátt verð á landbúnaðarafurðum og hátt verð á grænmeti eins og verið hefur, að einnig þar hefur fákeppni og einokun ásamt háum innflutnings- og magntollum haldið uppi háu verði, t.d. varðandi grænmetið. Hið sama á við um flesta bændur, t.d. garðyrkjubændur. Það er full ástæða til að nefna að margir þeirra búa við bága stöðu þó að við þurfum að borga himinhátt verð fyrir grænmeti, miklu hærra en gerist og gengur í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Herra forseti. Skattaloforð stjórnarflokkanna hafa verið gerð að umtalsefni. Eins og við höfum rætt um í umræðum um önnur mál, herra forseti, er það mjög sérkennilegt að á fyrstu dögum þingsins ræðum við um skattahækkanir sem þessir stjórnarflokkar standa fyrir, sem birtast okkur í formi hærri gjaldtöku, t.d. í heilbrigðiskerfinu, í hærri sköttum á bílana, á umferðina og bensínið. Flokkarnir forðast að ræða skattalækkanirnar enda í óvissu hvenær þær skattalækkanir eiga að koma.

Ég geri ráð fyrir að þetta mál fái góða umfjöllun í þingnefnd. Gott væri að fá fram afstöðu sjálfstæðismanna til frv. sem við ræðum hér, um lækkun á matvælum. Þetta var eitt af helstu kosningaloforðum sjálfstæðismanna, að lækka skatta á matvæli. Eins og vikið var að áðan er mjög sérstakt að enginn þingmanna sjálfstæðsmanna sá ástæðu til að taka þátt í þessari umræðu. Þeir töluðu mjög hátt í kosningunum um að lækka þyrfti skatta á matvæli og tekjuskatt. Kjósendur fá hins vegar að standa í algerri og fullkominni óvissu um hvenær þessar skattlækkanir muni sjá dagsins ljós. Því er ástæða til að ætla að þetta frv. fái ekki brautargengi hér í þinginu, ef sjálfstæðismenn ætla að halda sig við það sem þeir hafa gert á fyrstu dögum þingsins, að segja að það sé bara allt í lagi að skattalækkanir komi einhvern tíma undir lok kjörtímabilsins. Það er mjög klént að háttvirtir þingmenn standi þannig að máli en við viljum sýna fram á, herra forseti, að það sem við höfum sagt í þessum efnum stendur.