Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 13:37:02 (499)

2003-10-14 13:37:02# 130. lþ. 10.96 fundur 87#B geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er 10. október ár hvert og í ár var hann tileinkaður börnum og unglingum með geðraskanir. Geðræktarþing var haldið í tilefni dagsins og var hans einnig minnst með blaðaskrifum og viðtölum við foreldra og aðra sem málið varðar. Nýlega var stofnað félag foreldra og áhugafólks um geðraskanir barna og unglinga og má vænta að þar sé kominn ábyrgur þrýstihópur um bætta þjónustu. Vil ég beina því til hæstv. heilbrrh. að nýta sér krafta þessa fólks. Það er ljóst að geðheilbrigðisþjónustu hér á landi er að mörgu leyti ábótavant og þarf endurskoðunar við en brýnast er að bæta þjónustu barna og ungs fólks. Geðheilbrigði þessa aldurshópa hefur versnað á undanförnum árum og virðumst við fylgja sömu þróun og er í nágrannalöndum okkar. Ef erfiðleikar á sviði andlegrar líðunar, hegðunar eða þroska eru það miklir að þörf er á inngripi fagfólks má kalla það geðheilsuvanda. Ef vandinn er viðvarandi eða alvarlegur er um geðröskun eða geðsjúkdóm að ræða og eru þessi vandamál hlutfallslega algeng hjá börnum. Faraldsfræðilegar rannsóknir benda til að um 20% barna eigi við geðheilsuvanda að stríða á hverjum tíma og um 7--10% barna þurfi á geðrænni meðferð að halda. Þetta þýðir að um 10--20% barna þurfa á hjálp að halda vegna geðraskana. Ekki er að fullu ljóst hvers vegna þessi þróun á sér stað. Betri greining er einn þáttur af mörgum, hraði nútímaþjóðfélagsins, fjölskyldumunstur og samvera við foreldra, einelti, ofbeldi gegn börnum og ónógur stuðningur við fjölskyldur sem eru í vanda, allt þetta hlýtur að hafa mikil áhrif á geðheilsu og hegðun barna og unglinga, og eru þá aðeins nokkrir áhrifaþættir valdir.

Þar sem við getum að flestu leyti borið okkur saman við Norðurlöndin er ljóst að við höfum miklu færri meðferðarúrræði en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Í Danmörku og Svíþjóð voru 1997 meðferðarúrræði fyrir allt að 2% barna sem greindust með geðröskun en hér á landi voru það einungis 0,5% sem höfðu möguleika á meðferð og plássi. Fjöldi meðferða og plássa er ágæt viðmiðun á þjónustustigi. Til framtíðar litið er mikilvægt að þétta stuðningsnet fjölskyldunnar og auka nærþjónustu á mörgum sviðum eins og t.d. hefur verið gert á Akureyri með verkefninu Nýja barnið.

Virðulegi forseti. Nú er það ekki svo að ekkert hafi verið gert til þess að bæta þjónustuna. Í fjáraukalögum er lagt til að 27 millj. kr. verði varið til að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og þar af verði varið 20 millj. til sérstaks tímabundsins átaks, þ.e. að koma út teymi sem starfi við barna- og unglingageðdeildina fram til ársloka og sinni bráðatilvikum, skiptingu bráðalista eftir þjónustu unglingadeildarinnar og veiti sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu utan spítalans með heimsóknum til unglinga í vanda. Þetta teymi hefur þegar tekið til starfa. Viðbygging við BUGL bætir vinnuaðstöðu og fjölgar meðferðarplássum þeirrar stofnunar. Hvernig sem starfseminni verður háttað á næsta ári á eftir að koma í ljós, tel ég, að tímabundið meðferðarteymi eigi að starfa áfram eða auka þjónustuna í samræmi við fengna reynslu af þessu tímabundna átaki.

Þó nokkuð sé verið að auka brýna þjónustu BUGL, þ.e. barna- og unglingageðdeildarinnar, vantar opinbera heildstæða stefnumótun varðandi þjónustu á geðheilbrigðissviði fyrir börn og unglinga og fjölskyldur þeirra. Því til viðbótar hefur dregist úr hömlu að móta heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga eins og samþykkt var á Alþingi árið 2001 og enn hefur ekki litið dagsins ljós. Stefnumótun og endurskipulag geðheilbrigðisþjónustunnar er mjög brýn en jafnframt er mikilvægt að stefnumótunarvinnan fari saman svo úr verði heildstæð framtíðarstefna. Eða verður öllum tillögum að breytingum innan geðheilbrigðisþjónustunnar slegið á frest með því að vísa til nefndar um heildarendurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu?

Herra forseti. Af þessu tilefni hef ég lagt fram nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra, svohljóðandi:

Hvenær er áætlað að endurskoðun á lögum um heilbrigðisþjónustu liggi fyrir og munu verða gerðar umtalsverðar breytingar á sviði geðheilbrigðisþjónustu meðan sú endurskoðun stendur yfir?

Hvernig telur ráðherra að koma megi á, nú þegar, virkari samráði við heilsugæslu, skóla og félagsþjónustu varðandi úrlausnir og meðferð barna og unglinga með tilfinninga- og geðraskanir? Telur ráðherra að breyta þurfi reglugerðum um sérfræðiþjónustu skólans svo meðferð vegna tilfinninga- og hegðunarraskana geti hafist fyrr og í nærumhverfi barna? Mun ráðherra beita sér fyrir auknum framlögum til eflingar geðverndar og geðheilbrigðisþjónustu sveitarfélaga og mun ráðherra beita sér fyrir auknum meðferðarúrræðum barna og unglinga með geðraskanir?