Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 13:52:49 (503)

2003-10-14 13:52:49# 130. lþ. 10.96 fundur 87#B geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga# (umræður utan dagskrár), SigurlS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Í erindi formanns Félags foreldra og áhugafólks um geðraskanir barna, sem flutt var á alþjóðageðheilbrigðisdeginum sl. föstudag, kom fram að hér á landi eigum við nokkuð langt í land með að sinna þeim börnum sem eru verst stödd því hér eru einungis meðferðarpláss fyrir 0,5% barna og unglinga. Annars staðar á Norðurlöndunum er gert ráð fyrir að um 2% barna og unglinga þurfi á langvarandi aðstoð meðferðarstofnana að halda.

Þessar tölulegu upplýsingar segja mér hins vegar að viðhorf stjórnvalda til þessa málaflokks virðist vera að geðraskanir barna og unglinga séu mál sem sjálfkrafa eyðast og detta út. Einmitt þess vegna eru bráðabirgðalausnir hættulegar, ekki aðeins börnunum og unglingunum sem um er að ræða heldur samfélaginu öllu, því vandinn getur stækkað og orðið mun umfangsmeiri ef ekkert markvisst er gert til að taka á þörfum þessara barna og unglinga og veita þeim og fjölskyldum þeirra þau meðferðarúrræði sem þau eiga fullan rétt á. Það eru mörg grá svæði sem þarf að eyða. Það er skörun í þjónustuveitingu ríkis og sveitarfélaga til þessa hóps.

Þó ekki aðeins þurfi að bæta geðheilbrigðiskerfið þá verða skólar einnig að vera með inni í dæminu því um er að ræða börn á grunnskólaaldri. Meðfram því að efla geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga innan heilbrigðiskerfisins þarf líka að efla geðheilbrigðisþjónustu innan grunnskóla og framhaldsskóla. Þessir aðilar innan heilbrigðisþjónustunnar og grunnskólans þurfa því að finna lausnir sem allir geta verið sáttir við. Mikilvægast af þessu öllu er að það verði gert í fullri samvinnu við hagsmunahópa barna og unglinga með geðræn vandamál.