Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 14:06:47 (509)

2003-10-14 14:06:47# 130. lþ. 10.96 fundur 87#B geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga# (umræður utan dagskrár), GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Guðjón Ólafur Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil eins og fleiri þingmenn þakka hv. 10. þm. Norðaust. fyrir að hefja umræðu um þessi mál. Umræða um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga er þörf og löngu tímabær hér á hinu háa Alþingi. Því ber að fagna að hæstv. heilbrrh. hefur í störfum sínum lagt sérstaka áherslu á geðheilbrigðismál og eins og ráðherra gat um í ræðu sinni hér áðan ganga umbætur í geðheilbrigðisþjónustu fyrir. Það er auðvitað brýn nauðsyn til þess að taka á geðheilbrigðismálum barna og unglinga. Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra áðan voru fjögur þúsund heimsóknir barna til geðlækna á þessu ári og því síðasta.

Í samræmi við þessa áherslu hæstv. ráðherra hefur auknum fjármunum verið varið til geðheilbrigðisþjónustu við börn, bæði á fjárlögum árið 2002 og á fjárlögum árið 2003. Í því frv. til fjáraukalaga sem bíður afgreiðslu á hinu háa Alþingi er gert ráð fyrir 27 millj. kr. til að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga. Það er fyrir stækkun barna- og unglingageðdeildar við Dalbraut, flutning göngudeildar til að auka landsbyggðarþjónustu og sömuleiðis fyrir heimaþjónustu. Og síðast en ekki síst er gert ráð fyrir 45 millj. kr. til að stækka legudeild barna- og unglingageðdeildar í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár. Þá er sömuleiðis gert ráð fyrir 76 millj. kr. til að efla starfsemi barna- og unglingageðdeildar þannig að það er ljóst, hæstv. forseti, að það er vel unnið að þessum málum af hálfu hæstv. ráðherra og ég vona að þingheimur allur geti tekið höndum saman með hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórninni í þessum málum.