Geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 14:08:59 (510)

2003-10-14 14:08:59# 130. lþ. 10.96 fundur 87#B geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin, fyrir þann skilning sem hann virðist hafa á þessum málaflokki og fyrir það að hlusta á fólk. Það gleður mig að það skuli núna vera settur sérstakur verkefnisstjóri til að koma þessu samþætta starfi í einn öflugan farveg því að þessi skortur á samræmingu og samstarfi á milli þjónustuþátta, þ.e. skóla, heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaganna hefur háð geðheilbrigðisþjónustunni sérstaklega. Þarna verðum við að finna betri farveg til að öll vinna skili sér.

Herra forseti. Mér finnst mikilvægt að fram fari umræða um áherslur í heilbrigðisþjónustunni. Útgjöld til heilbrigðismála hækka ár frá ári og eðlileg skýring er á flestum þáttum. Þó má staldra við og spyrja sig hvort hægt sé að draga úr lyfjanotkun og -kostnaði með aukinni þjónustu. Bráðamóttökudeild barna og unglinga á að mínu mati að vera öll á sama stað, hvort sem um líkamlega eða geðræna sjúkdóma er að ræða. Núverandi fyrirkomulag ýtir undir fordóma gagnvart geðsjúkdómum sem mikilvægt er að vinna gegn með öllum ráðum, en greina má á milli bráðamóttöku göngudeildar og svo meðferðar til lengri tíma sem getur þá verið með sama hætti og nú er. Það þarf að efla þjónustu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og ráða þangað barnageðlækni. Sálfræðiþjónustu grunnskólanna þarf einnig að auka og gera mögulegt að sinna einfaldari geðröskunum. Auk þess þarf að koma þar á þverfaglegu greiningarteymi innan skólanna og í samvinnu við heilsugæsluna. Samvinnu skóla, heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaga þarf að koma á með skipulögðum hætti eins og vonandi verður nú, eftir tillögu hæstv. ráðherra. Reglur Jöfnunarsjóðs um endurgreiðslur á sérstökum kennslukostnaði er svo þröngur og umsóknarferli það erfitt að sjóðurinn endurgreiðir kostnað allt of lágs hlutfalls barna miðað við tíðnitölur hinna ýmsu tegunda fatlana, tilfinninga og geðraskana. Það verður að gera sveitarfélögunum kleift að efla nærþjónustuna. Að öðrum kosti munum við stórauka sjúkrahúskostnaðinn.