Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 14:26:33 (513)

2003-10-14 14:26:33# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Með frv. er lagt til að viðskiptabankar og sparisjóðir geti ekki sinnt fjárfestingarbankastarfsemi, þ.e. geti ekki tekið þátt í að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila.

Nýlega var farið yfir þetta mál á Alþingi. Í fyrra voru samþykkt yfirgripsmikil lög um fjármálafyrirtæki og starfsheimildir þeirra. Leitast er við að tryggja að starfsemi banka geti þróast með eðlilegum hætti án þess að löggjafinn setji henni óeðlilegar skorður. Hins vegar er talið eðlilegt að setja starfsemi banka ákveðnar skorður. Ástæðan er sú að sérþekking banka beinist að fjármálaþjónustu en ekki eðlisólíkum rekstri sem getur, verði tap á þeirri starfsemi, leitt til rekstraráhættu fyrir fyrirtækið og stefnt heilbrigði þess í hættu.

Í umræðum síðustu daga hefur verið litið svo á að engar reglur gildi hér á landi um eignarhluti banka í öðrum fyrirtækjum. Það er langt frá því að svo sé. Víðs vegar í regluverkinu er kveðið á um takmarkanir á eignarhlutum í öðrum fyrirtækjum, svo sem í eiginfjárreglunum, í reglum um stóra áhættu o.s.frv. Reglurnar lúta einnig að fjárfestingum banka í atvinnufyrirtækjum. Bankar geta ekki verið kjölfestufjárfestar í öðrum fyrirtækjum en fjármálafyrirtækjum. Á þetta legg ég sérstaka áherslu. Bankar geta ekki verið kjölfestufjárfestar í öðrum fyrirtækjum en fjármálafyrirtækjum. Þeir geta hins vegar til skamms tíma tekið yfir rekstur sem er í erfiðleikum og einnig geta þeir sinnt svokallaðri fjárfestingarbankastarfsemi, þ.e. að kaupa fyrirtæki í því skyni að sameina annarri starfsemi, selja almenningi eða umbreyta á annan hátt.

Þá geta bankar keypt verðbréf til að eiga í stuttan tíma, minna en eitt ár, í því skyni að hagnast á verðbreytingu. Bönkum er hins vegar ekki heimilt að eiga í atvinnufyrirtækjum til langs tíma með áhrif í huga. Þannig er það samkvæmt lögum sem eru í gildi í dag. Það er ekki hlutverk banka. Mikilvægt er að hafa þetta í huga.

Vert er að hafa einnig í huga að Fjármálaeftirlitið getur sett leiðbeinandi tilmæli um hvernig bankar eigi að bera sig að við fjárfestingarbankastarfsemi. Í umræðunni heyrist einnig oft að engir kínamúrar séu á milli einstakra starfskrafta. Það kann vel að vera að sú gagnrýni hafi átt rétt á sér fyrir þremur til fjórum árum en síðan hefur margt áunnist. Vinnubrögð banka og Fjármálaeftirlitsins hafa batnað mjög á þessum tíma og betri skilningur ríkir á nauðsyn þessa aðskilnaðar. Þá eru einnig ströng ákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki sem gilda um aðkomu stjórnar og starfsmanna að einstökum ákvörðunum.

Ég tel að þetta frv. mundi veikja íslenskan fjármálamarkað. Lagaramminn hér er í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins þar sem bönkum er heimilt að stunda viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi í sama fyrirtæki. Í Bandaríkjunum var lengi aðskilnaður á milli viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, en þau lög voru afnumin fyrir nokkrum árum. Lagaumhverfi okkar verður að vera samkeppnishæft við lagaumhverfi nágrannaþjóða okkar. Hér verða að gilda svipaðar reglur og í löndunum í kringum okkur. Annars munu íslensku fjármálafyrirtækin ekki verða íslensk. Við höfum heimild til að ganga lengra en EES-samningurinn kveður á um en þá værum við að ganga lengra en gert er í helstu viðskiptalöndum okkar. Þar með er ekki sagt að bankar geti gert hvað sem er. Bankar verða að hegða sér skikkanlega og koma fram með traustum og trúverðugum hætti.

Bankar og opinberir eftirlitsaðilar þurfa að gæta þess að hagsmunaárekstrar komi ekki upp sem grafið geta undan trúverðugleika banka og kerfisins í heild. Lagaramminn er til staðar og hann er samkeppnisfær við það sem best gerist, t.d. að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.