Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 14:35:36 (516)

2003-10-14 14:35:36# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ekki meining mín að tala á niðrandi hátt til hæstv. ráðherra og biðst ég afsökunar á því ef orð mín hafa verið skilin þannig. En það sem ég á við er að eftir því sem ég fæ best vitað hefur ekki verið gerð heildstæð úttekt á því hvernig þessi lög eru útfærð í Evrópu. Í annan stað vil ég nefna að við getum ekki að öllu leyti borið okkur saman við aðstæður þar. Íslenska hagkerfið er agnarsmátt og ástæðan fyrir því að við, mörg hver, vildum hafa hér ríkisbanka var ekki ást á ríkisbönkum heldur vegna þess að með því móti töldum við tryggðan stöðugleika í okkar litla hagkerfi.

Nú hefur það gerst sem við vöruðum við að eignarhaldið á fjármálastofnununum er að færast á sömu hendur og stýra efnahagslífinu og þar skapast hagsmunaárekstrar sem eru varhugaverðir og við viljum reisa skorður við þessu í lögum. Hæstv. ráðherra sagðist vera mjög meðvituð um það sem væri að gerast í fjármálalífinu, að bankarnir væru væntanlega fyrirferðarmiklir í efnahagskerfinu almennt. Hvað finnst hæstv. ráðherra um þetta? Finnst henni þetta virkilega vera æskilegt og ef svo er ekki, hvers vegna í ósköpunum vill hún ekki taka undir með okkur sem viljum reisa lagalegar skorður við þessu?