Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:00:08 (519)

2003-10-14 15:00:08# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér get ég tekið undir ýmislegt sem fram kom í ræðu hv. þm. En ég held að við setjum ekki í lög ákvæði sem koma í veg fyrir að tekist sé á um völd. Ég get í raun tekið undir það með honum að eitt af því sem hér hefur verið um að ræða eru átök um völd.

Hv. þm. talar um, það rifjaðist upp fyrir mér að hann hefur gert það áður, að bankarnir hafi verið afhentir einhverjum. Það er alltaf þetta orðalag, að afhenda bankana. Þegar bankar hafa verið seldir fyrir tugi milljarða þá heitir það á máli vinstri grænna að afhenda bankana, það er rétt eins og þeir hafi verið gefnir si svona. En það er ekki rétt og það ætti hv. þm. að vita.

Þegar hann talar um dreifða eignaraðild og að ræðurnar hafi snúist um það í tengslum við sölu bankanna þá kannast ég ekki við að svo hafi verið, a.m.k. ekki með þá sem hér stendur. Samkvæmt EES-samningnum gátum við ekki sett í lög að einum aðila væri ekki heimilt að eiga nema eitthvað ákveðið, 10% eða hvað það átti að vera. Það var einfaldlega þannig. Við fórum í mjög mikla vinnu í viðskrn. til að átta okkur á hver væri besta aðferðin við að selja banka. Niðurstaða okkar leiddi til þess að sett voru lög um eftirlit með virkum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Það er fyrirkomulag sem við búum við í dag.

Þegar Landsbankinn var seldur þá var það með ákveðnum skilyrðum sem Fjármálaeftirlitið setti og Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með þessu máli. Viðskrn. kemur ekki að því á þessu stigi. Svo einfalt er það.