Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:05:41 (522)

2003-10-14 15:05:41# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér að halda því fram að eftirlit Fjármálaeftirlitsins með virkum eignarhlut í bönkum komi fyrir lítið ef það eftirlit er svona eftir á. Hvernig var það þegar Landsbankinn fór í stórsviptingarnar í viðskiptalífinu í september? Komu þá einhver eftirlitsákvæði að gagni? Nei. Fjármálaeftirlitið getur auðvitað nöldrað eitthvað eftir á þegar allt er búið og gert. Það er algerlega gagnslaust ef málin eru þannig að menn hafa fengið í hendur banka, næststærsta eða stærsta banka þjóðarinnar, og geta notað hann sem tæki með tiltölulega frjálslegum hætti í valdabaráttu sinni í viðskiptalífinu. Þó að Fjármálaeftirlitið kynni að nöldra eitthvað eftir á, hver gerir eitthvað með það? Ég hef reyndar ekkert í því heyrt.

Varðandi kínamúra þá held ég að það segi allt sem segja þarf hvernig þetta er praktíserað í bönkunum. Bankarnir eru með fjóra eða fimm viðskiptareikninga og kaupa sennilega fyrirtæki með einum þeirra, borga starfsmönnum laun út í gegnum annan, eru með eignaumsýslu sína í þeim þriðja o.s.frv. Eru það kínamúrarnir, að það er ekki sami reikningurinn? Það er reikningur númer 160, 180, 220.