Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:11:50 (526)

2003-10-14 15:11:50# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Þá erum við sammála um þetta seinna atriði. Það er nákvæmlega það sem ég var að tala um. Að sjálfsögðu er mér ljóst að Fjármálaeftirlitið þarf að vera sjálfstætt. Það á ekki við í þessu tilviki frekar en öðrum sambærilegum málum og er ekki við hæfi að menn blandi sér inn í það hvernig Fjármálaeftirlitið tekur á einstökum málum.

En hvað varðar hina almennu framkvæmd eftirlitsins, reglusetninguna o.s.frv. þá heyrir það allt undir hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra er að lokum ábyrgur fyrir því hvernig framkvæmd laganna er. Þannig er það í okkar stjórnkerfi þó að sú ábyrgð gufi æðioft upp verði skandalar og hneyksli. Eins og kunnugt er bera þá íslenskir ráðherrar yfirleitt enga ábyrgð og það gerist varla nokkurn tíma að þeir segi af sér. En þeir bera hins vegar ábyrgðina þegar þeim þykir það henta.

Varðandi það að bankarnir túlki heimildir sínar rúmt samkvæmt lögunum þá hafa þeir einfaldlega gert það, hv. þm. Pétur Blöndal. Það er bara staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Bankarnir hafa í þessum efnum gengið eins langt og þeir mögulega geta, túlkað allar heimildir mjög rúmt og sér í hag.