Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:19:53 (528)

2003-10-14 15:19:53# 130. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A fjármálafyrirtæki# (kaup viðskiptabanka á hlutabréfum) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. talar um gjöf. Nú var það þannig að leitað var eftir fjárfestum, það var auglýst. Þá skil ég ekki af hverju sá lífeyrissjóður sem hann er í stjórn fyrir bauð ekki í bankann og þáði gjöfina, hann hefði ekki þurft að bjóða nema nokkrum milljörðum meira og þá hefði hann fengið þessa gjöf.

Varðandi hagnaðinn sem hv. þm. var að býsnast yfir, þá er hann ekki allur vegna reksturs, heldur að einhverju leyti vegna söluhagnaðar og er einskiptishagnaður sem kemur ekki aftur. Og hann var reiknaður inn í verðið þegar það var ákveðið.

Um dæmið sem hv. þm. tók um Kaupþing og Járnblendifélagið og svo sölu til lífeyrissjóða, þá er það lélegur dómur um fjárfestingaraðilana hjá lífeyrissjóðunum. Þeir hafa bara ekki staðið sig í stykkinu. Ef hægt var að kaupa fyrirtækið svona miklu ódýrar, af hverju gerðu þeir það ekki beint? Þetta var jú á markaði. Mér finnst öll þessi ræða varðandi þau atriði vera slæm og þó að ég gæti ýmislegt gott sagt um frumvarpið sjálft, þá var þessi lokaræða ekki sérdeilis góð.