Raforkukostnaður fyrirtækja

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:31:49 (533)

2003-10-14 15:31:49# 130. lþ. 10.4 fundur 8. mál: #A raforkukostnaður fyrirtækja# þál., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar þáltill. um raforkukostnað fyrirtækja, um að skipuð verði nefnd sem fari yfir og geri úttekt á kostnaði á raforkuverði til fyrirtækja í landinu. Með því að slík nefnd yrði skipuð og færi að skoða mismun raforkuverðs milli landshluta væri í raun verið að gefa skýrslu um ástand sem mun breytast á næstu missirum. Og þá má velta fyrir sér hvort það yrði mikið gagn í raun að slíkri skýrslu og slíkri vinnu. Með tilkomu nýrra raforkulaga munu raforkunotendur brátt geta nýtt sér þann kost að leita tilboða milli raforkusala. Þetta mun eiga við um stærri notendur, þ.e. þá sem nota meira en 100 kílóvött, frá 1. janúar 2005 og alla notendur frá 1. júlí 2007. Þessi breyting er til þess fallin að jafna aðstöðu milli notenda því þeir geta nýtt sér þennan möguleika, algjörlega óháð staðsetningu.

Það er ljóst að í raforkukerfinu eins og það er í dag er jöfnun kostnaðar til staðar á milli dreifbýlis og þéttbýlis sem nemur um 500 millj. kr. Þetta er fyrst og fremst á dreifisvæði Rariks og Rarik hefur að verulegu leyti þurft að taka þennan kostnað inn í sinn rekstur sem verður ekki heimilt samkvæmt nýju lögunum vegna þess að það er ekki hægt að íþyngja einu orkufyrirtæki umfram annað. Þess vegna er í rauninni hægt að segja að þessi tillaga hv. þingmanns sé ekki mjög í samræmi við breytt lög og breytt umhverfi sem við erum að fara inn í.

Fyrirkomulag flutnings á raforku í nýju umhverfi hefur ekki verið ákveðið endanlega, en nefnd sem er skipuð samkvæmt bráðabirgðaákvæði í raforkulögum nr. 65/2003 er nú að störfum og það er ekki útilokað að niðurstaða þeirrar nefndar hafi einhver áhrif á orkuverð, bæði á landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Í þessari nefnd sitja 19 einstaklingar og allir þingflokkar eiga aðild að henni.

Aðalatriðið sem ég vildi sem sagt koma hérna á framfæri er að í rauninni er þetta mál komið í algjörlega nýjan farveg og það verður tekin upp samkeppni í sölu á raforku í áföngum. Fyrsti áfanginn er í raun hvað varðar það að velja sér raforkusala 1. janúar 2005.