Raforkukostnaður fyrirtækja

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:35:21 (534)

2003-10-14 15:35:21# 130. lþ. 10.4 fundur 8. mál: #A raforkukostnaður fyrirtækja# þál., Flm. SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur mér ákaflega á óvart að hæstv. ráðherra byggðamála skuli ekki taka betur í þessa tillögu en raun ber vitni. Staðreyndin er sú að raforkuverð til t.d. fiskvinnslu á landsbyggðinni er 30% hærra en raforkukostnaður sambærilegra fyrirtækja á Reykjavíkursvæðinu. Ég er á því að það sé ekki þessi munur á að dreifa orkunni á Sauðárkróki t.d. eða í Hafnarfirði. Sjávarbyggðir úti á landi neyðast til þess að taka þátt í því að greiða niður orku til t.d. sveitabæja og í sumarhúsabyggðir og mér finnst bara ósanngjarnt að fyrirtæki sem eru t.d. á starfssvæði Rariks taki ein þátt í þeirri greiðslujöfnun. Og ég er alveg sannfærður um að það sé nauðsynlegt að fara vel yfir þessi mál áður en framtíðarskipan þeirra verður ákveðin. Þess vegna kemur mér það mjög á óvart að iðnrh. hæstv. skuli ekki taka betur í þessa tillögu en raun ber vitni.