Raforkukostnaður fyrirtækja

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 15:36:54 (535)

2003-10-14 15:36:54# 130. lþ. 10.4 fundur 8. mál: #A raforkukostnaður fyrirtækja# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einhver misskilningur í málflutningi hv. þm. Ég var nefnilega að segja að við erum að fara út úr þessu kerfi. Við erum að fara inn í nýtt kerfi þar sem viðkomandi fyrirtæki geta skipt við þann raforkusala sem þau kjósa. Ég sagði einmitt í ræðu minni áðan að það væri ekki sanngjarnt að Rarik þyrfti eitt að taka á sig kostnað vegna óarðbærra eininga í kerfinu, enda verður það ekki heimilt samkvæmt nýjum lögum, það má ekki leggja slíkar kvaðir á eitt fyrirtæki umfram annað og þess vegna verður það ekki. Miðað við umræðu sem fór fram hér á hv. Alþingi sl. vetur heyrist mér að mikil samstaða sé um að það verði á einhvern hátt jafnað áfram þótt það eigi ekki að bitna á einu fyrirtæki frekar en öðru. Spurningin er þá eingöngu sú hvort það verður gert með jöfnunargjaldi, að koma til móts við þessar 500 millj., eða hvort það verður gert með framlögum úr ríkissjóði.

Það sem ég er að segja er eingöngu það að við erum að fara út úr þessu kerfi sem hv. þm. vill að verði skoðað. Það getur verið upp á söguna mikilvægt að hafa þær upplýsingar en þær skipta okkur í raun engu máli vegna þess að við erum búin að taka ákvörðun um að fara inn í annað kerfi þar sem er samkeppni og frelsi, bæði hvað varðar framleiðslu og sölu á raforku.