Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:03:49 (539)

2003-10-14 16:03:49# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., SKK
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 8/1993, með síðari breytingum.

Hv. þm. og flm. frv., Lúðvík Bergvinsson, hefur hér gert grein fyrir efni frv. og inntaki þeirra ákvæða sem lagt er til að lögfest verði hér á Alþingi.

Ég sé mig knúinn til vegna þessa frv. og atriða sem fram koma í því, að leggja hér orð í belg og gera nokkrar athugasemdir við ákvæði frv., einkum 1. gr. frv. og ekki síður 3. gr. þess, en ég mun væntanlega síðar í umræðunni víkja að 2. gr. frv.

Í framsöguræðu sinni lýsti hv. þm. Lúðvík Bergvinsson því yfir að það væri mikilvægt að á markaði ríktu skýrar reglur. Ég veit ekki betur en að reglurnar sem gilda nú á markaði séu skýrar og fyrirtækjum beri að fara eftir þeim í þeirri starfsemi sem þau hafa tekið sér á hendur. Þær breytingar sem hv. þingflokkur Samfylkingarinnar er að leggja hér til lúta fyrst og fremst að því að auka heimildir samkeppnisyfirvalda til þess að gera húsleitir hjá yfirmönnum fyrirtækja. Jafnframt er verið að herða refsingar við brotum gegn samkeppnislögum og það á að leggja sektir á einstaklinga og þá væntanlega stjórnendur fyrirtækja en hlífa fyrirtækjunum sjálfum við refsiábyrgð miðað við það sem áður var.

Ég tel nauðsynlegt að gera alvarlegar athugasemdir við þessar tillögur sem hér liggja fyrir. Ég ætla að byrja á því að víkja að 1. gr. frv. Þar er lagt til að Samkeppnisstofnun geti gert húsleit, ekki bara í starfsstöðvum fyrirtækis, heldur geti einnig lagt hald á gögn á heimilum stjórnenda fyrirtækja.

Ef við skoðum ákvæðið í samkeppnislögunum eins og það er nú, þá er það þannig orðað, með leyfi forseta:

,,Samkeppnisstofnun getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda.``

Ef við skoðum orðalagið eins og það kemur fyrir í þessu lagafrv. þá er gert ráð fyrir því að Samkeppnisstofnun geti við rannsókn máls gert húsleit í starfsstöðvum fyrirtækis, þannig að það má segja, ef við miðum við svona hefðbundnar skýringar á hugtökum í lögfræði, þá sé í rauninni verið að veita þarna auknar heimildir til handa samkeppnisyfirvöldum. Það er verið að leggja beint til að Samkeppnisstofnun fái húsleitarheimild sem ætti að öllu jöfnu að ganga lengra en ákvæði núverandi laga kveður á um, en það kveður á um sérstakar athuganir á starfsstöðvum fyrirtækja. En það má kannski segja að miðað við hvernig samkeppnislögin og þær reglur sem þau kveða á um hafa verið praktíseraðar, hafi í rauninni verið um húsleitarheimildir að ræða.

En það sem er alvarlegt og ég vil gera athugasemdir við í þessu frv. er að verið er að leggja til að Samkeppnisstofnun geti við rannsókn mála ráðist inn á heimili einstaklinga og gert húsleit þar í rannsóknum sínum á meintum brotum á samkeppnislögum.

Eins og fram kom í máli hv. flm. þessa frv. og frsm. hér á Alþingi, hv. alþm. Lúðvíks Bergvinssonar, þá stendur allur þingflokkur Samfylkingarinnar að baki þessu frv. Margir þeirra flutningsmanna sem hér eru taldir upp hafa nú gefið sig út fyrir það að vera miklir lýðræðissinnar og fyrir að vilja borgurunum allt hið besta og vilja standa vörð um réttindi borgaranna. Það frv. sem hér liggur fyrir þinginu er að mínu mati ekki í samræmi við þau sjónarmið sem hv. þm. hafa haft uppi í öðrum málum. Ég tel að hér sé verið að ganga ansi hart að réttindum einstaklinga og þeim réttindum sem þeim eru tryggð t.d. í 71. gr. stjórnarskrárinnar, sem fjallar um friðhelgi einkalífsins, heimilis og fjölskyldu.

Ég vil benda á það og ég vil að það komi hér fram að ég tel að það verði að fara mjög varlega með það ef menn ætla sér að veita stofnunum, opinberum stofnunum eða yfirvaldi, heimild til að raska friðhelgi einkalífs, hvort sem um er að ræða húsleit á heimilum, haldlagningu á gögnum sem notuð eru til einkanota, líkamsleit eða önnur slík úrræði sem stjórnvöldum eru falin í lögum.

Ég minni á að það er nú þannig, hygg ég, að flestir stjórnendur fyrirtækja eða mikill meiri hluti þeirra er fjölskyldufólk og að þetta fólk býr á sama heimilinu. Hvernig sjá menn það fyrir sér og hv. flutningsmenn frv. að þessi lög verði framkvæmd? Hvernig ætla menn að komast hjá því, ef lögin verða samþykkt, að hinni stjórnarskrárvörðu friðhelgi einkalífs þeirra sem búa á þeim heimilum sem samkeppnisyfirvöldum er ætlað að fá heimild til þess að fara inn á og framkvæma leit á, verði ekki raskað? Hvernig ætla menn að tryggja friðhelgi einkalífs þessa fólks, barna og annarra fjölskyldumeðlima, verði þetta frv. að lögum?

Ég bendi bara á þetta atriði sérstaklega sem atriði sem vert er að hafa í huga. Þar fyrir utan erum við að tala hér um úrræði sem ganga mjög langt. Verið er að leggja til að Samkeppnisstofnun fái mjög rúmar heimildir til þess að rannsaka mál.

Menn þekkja það sem hafa komið að samkeppnismálum og fylgst með umræðunni í gegnum tíðina að Samkeppnisstofnun hefur verið gagnrýnd fyrir það að hafa gengið ansi hart fram í því að leggja hald á gögn þegar farið hefur verið inn í fyrirtæki og þar framkvæmd húsleit. Starfsmenn þessara fyrirtækja hafa kvartað yfir því að lagt hafi verið hald á persónulega muni þeirra eða persónulegar upplýsingar, svo sem tölvupóst og annað sem ekkert kemur rekstri viðkomandi fyrirtækja við. Þetta hefur verið gagnrýnt í umræðunni. Og með því að leggja það til að stofnuninni verði heimilað að fara inn á heimili stjórnenda fyrirtækjanna er verið að stíga, tel ég, mjög hættulegt skref. Það er verið að stíga það skref að veita eftirlitsaðilum á markaði og hér í stjórnsýslunni heimildir til þess að fara inn á heimili borgarans, og það er alvarlegur hlutur að heimila slíkt.

Ég get ekki séð annað en að flutningsmenn þessa frv. séu í rauninni að leggja til að stofna hér hreinlega bara aðra lögreglu. Það er verið að fela Samkeppnisstofnun heimildir sem lögreglan hefur haft í sínum höndum fram til þessa og það er í rauninni verið að hliðsetja samkeppnisyfirvöld lögregluyfirvöldum. Ég tel að þær heimildir sem nú þegar eru í lögum og heimila yfirvöldum að raska friði borgaranna og ráðast gegn réttindum þeirra, sem m.a. eru varin í stjórnarskrá, gangi nægilega langt og það sé engin ástæða til þess að veita auknar heimildir til slíks. Ég vildi því benda á það að ég vara sérstaklega við því að heimiluð verði húsleit á heimilum stjórnenda fyrirtækja eins og lagt er til í þessu frv.

Mig langar einnig til þess að víkja að 3. gr. frv. Samkvæmt b-lið 3. gr. frv. er lagt til að sektir samkvæmt lögum þessum verði einungis lagðar á einstaklinga.

[16:15]

Í greinargerð með frv. segir í fyrsta lagi að lagt sé til að refsiábyrgð fyrirtækja verði afnumin. Með öðrum orðum, og ég get ekki skilið frv. öðruvísi en svo, verði fyrirtæki sem starfar á markaði uppvíst að brotum á IV. kafla samkeppnislaganna eins og þau eru núna, sem fjallar um bann við samkeppnishömlum, og grípi samkeppnisyfirvöld til þess úrræðis að beita viðurlagaheimildum samkeppnislaganna verða þær sektir lagðar á einstaklinga og þá væntanlega stjórnendur fyrirtækjanna. Ef svo er ekki --- frsm. hér hristir hausinn --- væri ágætt að fá útskýringu á því hvernig þetta er nákvæmlega hugsað. Ég get ekki betur séð, eins og frv. er sett fram, en að sektir samkvæmt lögunum verði einungis lagðar á einstaklinga. Það hlýtur að þýða að stjórnendur fyrirtækjanna verði að bera þessar sektir en ekki fyrirtækin sjálf.

Ef þetta er sú regla sem menn ætla að leiða hér í lög á ég erfitt með að sjá að það verði auðvelt að fá fólk til þess að taka að sér trúnaðarstörf, hvort sem það eru framkvæmdastjórastörf eða stjórnarstörf í félögum. Ef menn mega búast við því að fá send sektarboð persónulega á sig verði fyrirtækið uppvíst að brotum á samkeppnislögum hefur sjálfsagt enginn áhuga á slíku starfi. Ef þetta er einhver misskilningur væri ágætt að fá útskýringar á því en ég get ekki lesið frv. öðruvísi en að þetta sé sú efnislega regla sem lögð er til.

Það eru ýmis önnur atriði í þessu frv. sem sæta furðu eða rétt er að gera athugasemdir við. Í a-lið 3. gr. er lagt til að refsingar verði hertar, þær verði gerðar allt að sex árum, þ.e. að brot á lögunum varði allt að sex ára fangelsi. Ef ég man lögin rétt varðar brotið núna tveggja eða fjögurra ára fangelsi. Það er helst vísað til varnaðaráhrifa þessari breytingu til rökstuðnings. Mig langar bara til að varpa þeirri spurningu fram til hv. flutningsmanns frv. hvort einhver könnun hafi verið gerð á því eða við hvað sú skoðun flutningsmanna styðst að hertar refsingar hafi einhver aukin varnaðaráhrif miðað við það sem nú er. Ég veit að hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni er kunnugt um að gerðar hafa verið rannsóknir á sviði refsiréttar og afbrotafræði, bæði hér á Íslandi og í Bandaríkjunum, sem hafa sýnt fram á það að hertar refsingar leiða ekkert endilega til þess að menn hætti að brjóta af sér. Og sömuleiðis sjáum við það í löggjöf og dómaframkvæmd hér á Íslandi að hertar refsingar í einstökum flokkum hafa ekkert leitt til þess að refsingum hafi fækkað. Það væri ágætt að fá skýringar á því hvað hv. flm. frv. hafa fyrir sér þegar þeir benda á það að hertar refsingar eigi að hafa varnaðaráhrif, eða hvort þetta er einfaldlega tilfinning þeirra.

Virðulegi forseti. Í þessari lotu tel ég rétt að gera athugasemdir við það að hér verði leiddar í lög þær reglur að heimila yfirvöldum húsleitir á heimilum einstaklinga. Og sömuleiðis að sektir vegna brota á samkeppnislögum verði lagðar á einstaklinga.