Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:20:17 (540)

2003-10-14 16:20:17# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var margt sem kom fram í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í þessari umræðu og ég mun á eftir reyna að takast á við þær spurningar og það sem hann varpaði upp. Ég hlýddi með athygli á mál hans og ég verð að segja alveg eins og er að ég var að reyna að átta mig á því og greina hvað hann væri raunverulega að segja. Það sem ég las út úr þessu er það að hv. þingmanni þykir samkeppnin sem slík ekki vera þess virði að hún sé vernduð með öllum tiltækum ráðum. Það er í raun og veru ekkert annað sem ég gat lesið út úr ræðu hv. þm. en að samkeppnin væri ekki það mikilvæg að leitað yrði allra leiða til þess að vernda hana, þveröfugt við það sem réttarþróun hefur verið alls staðar á Vesturlöndum þar sem menn hafa gengið mjög hart fram í að vernda samkeppnina vegna þess að hún sé vænlegust til að tryggja almannahagsmuni, vænlegust til að koma í veg fyrir verðsamráð og vænlegust til að tryggja það að markaðurinn skili almenningi því sem hann á að skila. Það er í raun og veru það eina sem ég gat lesið út úr ræðu hv. þm., þ.e. til þess að reyna að átta mig á því á hvaða grundvallarhugmyndum hann byggir sinn málflutning.

Ég mun hins vegar í ræðu á eftir svara þeim einstöku spurningum eða hugmyndum sem hann varpaði upp en ég verð að segja, virðulegi forseti, að þetta olli mér miklum vonbrigðum í málflutningi hv. þingmanns.