Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:33:04 (545)

2003-10-14 16:33:04# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:33]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þær upplýsingar sem hún kom með hér í umræðuna. Mér leikur hins vegar forvitni á að vita hvernig hæstv. ráðherra muni bregðast við ef niðurstaða nefndarinnar verður sú að gera ekki neitt eða hvort ráðherra bíði alfarið eftir niðurstöðu nefndarinnar og muni láta niðurstöðu hennar alfarið ráða för í því sem fram undan er.

Ég tel mjög mikilvægt að þær verkaskiptingarreglur sem við leggjum til verði lögfestar og það verði sett skýrt fram hvernig ríkissaksóknari og lögregla annars vegar og samkeppnisyfirvöld hins vegar starfa. Hér er um mjög alvarleg brot að ræða og í reynd er það svo að verðsamráð fyrirtækja, verðsamráð keppinauta er í reynd ekkert annað en þjófnaður af almenningi, það er ekkert annað, og það er mjög alvarlegt brot.

Virðulegi forseti. Af því að mér fannst á hæstv. ráðherra að hún mundi heykjast á því að leggja til í frumvarpi að gengið yrði jafnlangt og við leggjum til hér þá hlýt ég að vekja upp spurningu. Þar sem fyrir liggur að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fær þær heimildir sem hér er verið að leggja til að verði festar í lög 1. maí 2004, og í beinu framhaldi af því mun Eftirlitsstofnun EFTA fá slíkar heimildir, þ.e. að leita á Íslandi og í þeim ríkjum sem heyra til EFTA-landanna, þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún muni þá, komi til þess, beita sér gegn því að slíkar reglur verði lögfestar.