Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:35:11 (546)

2003-10-14 16:35:11# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:35]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef kannski misst af einhverju í umræðunni en eins og ég hef kynnt mér þetta mál er hugsanlega tilskipun í farvatninu sem lýtur að því að heimilt verði að gera húsleit á heimilum forsvarsmanna fyrirtækja, en ég er þeirrar skoðunar að það komi ekki til þess hér á landi fyrr en það hefur verið sett í íslensk lög. Þess vegna sagði ég að við mundum að sjálfsögðu fylgjast með því sem gerist á þessum vettvangi, og ekki bara vegna þess að við höfum áhuga á því heldur vegna þess að okkur er það skylt. En ég sagði enn fremur að ég mundi ekki beita mér fyrir því, ég mundi ekki hafa frumkvæði að því að slíkt yrði sett í lög án þess að við hefðum í höndum tilskipun sem kvæði á um slíkt.

Hvað varðar nefndina sem skipuð hefur verið þá vinnur hún hratt og ég held að rétt sé að ég tjái mig ekkert frekar um þann þátt mála fyrr en hún hefur skilað af sér. Ég reikna alveg með að hún komist að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að skerpa lögin, ég held að reynsla okkar frá síðasta sumri segi okkur það að þetta getur ekki verið svo að opinberar stofnanir sem við berum ábyrgð á, framkvæmdarvaldið, sé að kasta þannig boltanum á milli sín. Mér finnst ekki skemmtilegt að vera vitni að því og ekki íslenskri stjórnsýslu til sóma.