Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:37:06 (547)

2003-10-14 16:37:06# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., ISG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:37]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Frú forseti. Það frv. til laga um breytingu á samkeppnislögum sem þingmenn Samf. leggja fram er auðvitað ekki úr lausu lofti gripið heldur á rót sína að rekja til þeirrar hryggðarmyndar sem hefur blasað við okkur á undanförnum mánuðum þegar stofnanir ríkisins hafa vísað hver á aðra varðandi ábyrgð á rannsókn mála sem tengjast meintu samráði olíufélaganna hér á landi. Við höfum ekki bara fylgst með opinberum stofnunum, ríkisstofnunum vísa hver á aðra heldur höfum við líka fylgst með ráðherrum vísa hver á annan og við höfum fylgst með þingmönnum vísa hver á annan, þ.e. þingmönnum aðallega Sjálfstfl. og Framsfl. Eins og hæstv. viðskrh. gat um áðan hafa menn ekki bara verið að kasta boltanum á milli sín, eins og hún orðaði það, heldur beinlínis verið að vísa ábyrgðinni frá sér og yfir á aðra. Þetta hafa kannski fyrst og fremst verið Samkeppnisstofnun annars vegar og ríkislögreglustjóri hins vegar.

Meðan þetta gerist liggja saklausir einstaklingar undir grun og sekir sleppa hugsanlega með skrekkinn vegna þess að hegningarlögin, fyrningarregla hegningarlaganna gerir ráð fyrir að fyrningartíminn sé tvö ár og núna eru 22 mánuðir liðnir væntanlega af þeim fyrningartíma og enn er óvíst um rannsókn á vegum ríkislögreglustjóra á meintum afbrotum forsvarsmanna þessara fyrirtækja.

Svo virðist sem lögreglurannsókn sé ekki enn hafin og ríkislögreglustjóri hefur sagt að hann vanti 25 millj. kr. til þess að geta hafið þá rannsókn og sótt hafi verið um fjárveitingu á fjáraukalögum, en eftir því sem mér skilst er ekki gert ráð fyrir að þetta framlag komi á fjáraukalögum. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort rannsókn verði þá einfaldlega ekki hafin og fyrningartíminn líði áður en menn taka við sér.

Það sem verið er að leggja til í 2. gr. frv. er að skýra það hver verkaskiptingin er á milli stofnana í þessum málum þannig að sá leikur sem við höfum horft á í sumar endurtaki sig ekki, og það sé skýrt hvert er verkefni annars vegar ríkissaksóknara og þá ríkislögreglustjóra og hins vegar Samkeppnisstofnunar í þessum málum. Sú atburðarás sem við höfum fylgst með í sumar hefur dregið verulega úr trausti og trúverðugleika þessara stofnana sem auðvitað er mjög alvarlegt því að þær eiga að gæta mjög mikilvægra almannahagsmuna.

Lagt er til í frv. að ákvæði samkeppnislaga um þessi atriði verði gerð skýrari og gerð er tillaga um það í 2. gr. Ég hef reyndar ekki heyrt verulegan ágreining um þann þátt málsins.

Hins vegar virðist 1. gr. frv. fara meira fyrir brjóstið á þeim mönnum sem hér tala. Það er svo sem skiljanlegt vegna þess að það er auðvitað alltaf mjög alvarleg aðgerð að ráðast til inngöngu á heimili fólks og leita þar sönnunargagna í málum sem varða brot á lögum. Það á við í öllum tilvikum þegar ráðist er til inngöngu á heimili fólks. Heimilið er jú friðhelgt eins og fram hefur komið og auðvitað verður alltaf að fara mjög varlega með slíkt vald sem þarna er um að ræða. En gerð er tillaga um það í 1. gr. að við framkvæmd aðgerða samkvæmt þessari málsgrein skuli farið eftir ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum, þannig að það þarf að berast undir dómstóla að sækja þann rétt. Og það er ekki stofnunin sem hefur hann sjálfkrafa, hún þarf að sækja um heimildina og þá er farið eftir ákvæðum þessara laga.

En ég get sannarlega tekið undir það að mikilvægt er að fara varlega með þetta vald og það á við í öllum tilvikum. Það á líka við í tilvikum þar sem menn eru grunaðir um brot á lögum um meðferð fíkniefna, það á líka við í þeim tilvikum. Það eru líka einstaklingar sem búa á þeim heimilum, makar, börn og fleiri aðilar. Því verður það auðvitað alltaf að eiga við að fara á varlega með slíkt vald.

Hins vegar er brot gegn almannahagsmunum, eins og um er að ræða þegar brotið er gegn samkeppnislögum, ekki síður alvarlegt en brot gegn einkahagsmunum og við höfum tilteknar eftirlitsstofnanir til að fylgjast með í þeim efnum og þær þurfa auðvitað að hafa tæki til þess að rækja eftirlitsskyldu sína.

Hvað varðar sektir, það verður væntanlega útskýrt frekar af 1. flm. frv., þá er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir því í frv. að fyrirtæki séu laus undan öllum sektargreiðslum. Gert er ráð fyrir því að fyrirtæki sæti eftir sem áður stjórnsýsluviðurlögum og þar getur verið um verulegar fjárhæðir að ræða sem fyrirtækjunum er gert að greiða vegna brota á samkeppnislögum, en það eru einstaklingarnir sem sæta refsiábyrgð og hún getur eftir atvikum verið fangelsi eða sektir. Þarna er að sjálfsögðu ekki verið að leggja það til að fyrirtækin sem slík séu laus allra mála og þurfi ekki að greiða viðurlög vegna þeirra brota sem þau fremja á samkeppnislögum.

Ég ætla, frú forseti, ekki að hafa um þetta miklu fleiri orð en mig langar í lok máls míns til að ítreka það að mikilvægt er að opinberar stofnanir geti ekki vísað hver á aðra eins og þær hafa gert í sumar og það er mikilvægt að ekki bara stofnanirnar axli ábyrgð sína heldur geri ráðherrarnir það líka. Mér finnst að á það hafi skort í sumar. Þegar upp kom umræða um að ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri tækju mál olíufyrirtækjanna og meint brot þeirra eða einstaklinganna sem þar starfa til meðferðar þá vísaði hver á annan, ekki bara stofnanirnar heldur ráðherrarnir líka. Og enn höfum við ekki séð hvort ríkislögreglustjóri ætlar að fara í þá rannsókn sem um er að ræða. Hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason sagði í viðtali við Morgunblaðið þá að mörg þung og umfangsmikil verkefni hvíldu á embætti ríkislögreglustjóra og að leggja yrði efnislegt mat á ósk hans um fleiri starfsmenn. Ég vona að dómsmrh., sem hefur haft til þess tæpa tvo mánuði, sé búinn að leggja efnislegt mat á þessa beiðni og geri sér grein fyrir hvort fjármuni þurfi, aukafjármuni, til að sinna þessu hlutverki eða hvort þeir fjármunir sem ríkislögreglustjóri hefur duga honum til að fara í þá rannsókn. Og ef svo er, ef þeir fjármunir duga, þá er það út af fyrir sig mjög merkilegt að hún skuli ekki fyrir löngu komin af stað.