Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:49:39 (550)

2003-10-14 16:49:39# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:49]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við það sem kom fram í ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hlýtur það að vera framtíðarmúsíkin hjá þingflokki Samfylkingarinnar að veita öðrum eftirlitsaðilum á markaði, hvort sem það er skattyfirvöldum eða öðrum sem hafa eftirlit með einhverri starfsemi, á hvaða markaði sem er, sambærilegar heimildir. Það hlýtur að vera. Ef menn vilja gæta samræmis á öllum sviðum markaðarins þá hlýtur það að vera rökrétt framhald af því frv. sem hér er lagt fram að heimila húsleitir á heimilum stjórnenda allra þeirra fyrirtækja sem allar eftirlitsstofnanir í landinu hafa eftirlit með. Það hlýtur að vera. Ég get ekki séð að aðrar eftirlitsstofnanir gegni veigaminna hlutverki en Samkeppnisstofnun. Það verður gaman að sjá hvort slík frv. komi fram og hvort fleiri tillögur um frekari húsleitarheimildir er að vænta frá hv. þingflokki Samfylkingarinnar.