Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 16:52:34 (552)

2003-10-14 16:52:34# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim þingmönnum sem tóku til máls um þetta mál fyrir þau sjónarmið sem þeir hafa sett fram. Og síðast en ekki síst þeim sem hafa gert athugasemdir við frv. og sett fram sjónarmið sem þeir telja að dragi að einhverju leyti úr vægi þess, því það er mikilvægt að rökræðan fari fram og menn setji fram sjónarmið sem bendi á það sem hugsanlega megi bæta, þó ég sé reyndar þeirrar skoðunar eftir þessa umræðu að ég hafi herst mjög í þeirri skoðun að mjög mikilvægt sé að þetta frv. verði að lögum.

Mig langar aðeins að byrja á að nefna það að þegar við ræðum hluti eins og húsleit þurfum við að átta okkur á hvaða hagsmuni við erum að vernda. Eru þeir þess virði að hægt sé að opna á heimildir til þess að trufla svo friðhelgi einkalífs að heimila opinberum stofnunum að fara inn til að leita að gögnum ef upp kemur grunur um að refsivert brot hafi verið framið? Í þessu tilviki er það samkeppnin sjálf sem við teljum að við séum að vernda. Við teljum að samkeppnin sé grundvallarforsenda þess að markaðurinn virki eins og hann á að virka og virki þannig fyrir almenning. Þetta er algert lykilatriði.

Ég verð að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem að einhverju leyti talar fyrir þau sjónarmið sem hafa verið nokkuð ráðandi í yngri deild flokksins, skuli ekki telja samkeppnina svo mikilvæga að rétt sé að vernda hana með þeim ráðum sem hér er lagt til. Það er þveröfugt við það sem hefur verið að þróast alls staðar á Vesturlöndum og alls staðar þar sem menn hafa verið með þróaðan markað.

Í mínum huga er það svo að þegar keppninautar koma sér saman m.a. um verð er það ekkert annað en þjófnaður af almenningi. Það er ekkert annað. Ég tel að þegar um slík brot er að ræða eigi að beita þeim vopnum sem tiltæk eru, og í þessu tilviki leggjum við þetta til. Hins vegar gerum við að sjálfsögðu þá skýlausu kröfu að ef slíkt kemur til álita sé það dómstóla að meta hvort nægileg gögn séu til staðar til þess að fara í slíka húsleit.

Hv. þm. spurði áðan hvort hér væri á ferðinni hugsanlega fyrsta skrefið af mörgum til að veita öllum eftirlitsstofnunum samfélagsins sambærilegar heimildir. Ég held að rétt sé að upplýsa hann um það líkt og ég gerði áðan að það er aðeins ein eftirlitsstofnun sem hefur heimild til húsleitar án dómsúrskurðar sem ég veit um, það er Póst- og fjarskiptastofnun, sem sjálfstæðismenn fóru með í gegnum þingið þrátt fyrir ítarlegar aðvaranir um að veita ekki svo opnar heimildir, þá var það keyrt í gegnum þingið þannig að væntanlega eru þá eins og ég nefndi áðan ný sjónarmið uppi að einhverju leyti í yngri deild flokksins.

Hvað varðar Fjármálaeftirlitið er fyrirkomulagið þar þannig að því ber skylda til að afhenda lögreglunni upplýsingar um leið og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins telja að brot séu þess eðlis að þau eigi heima hjá lögreglunni hvað varðar einstaklinga. Og það er nákvæmlega það sama og hér er verið að leggja til, að ríkissaksóknari og lögregla fari með rannsóknir á brotum varðandi einstaklinga. Hins vegar ef um er að ræða brot er lúta að fyrirtækjum heyri það undir Samkeppnisstofnun.

Þessar þrjár eftirlitsstofnanir, þ.e. Póst- og fjarskiptastofnun, Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitið hafa allar mismunandi heimildir. Póst- og fjarskiptastofnun hefur þótt undarlegt megi virðast opnustu heimildina og í þeirri umræðu sem hér fór fram á sínum tíma þá mátti í reynd skilja ákvæðið þannig, þótt ég hafi nú alltaf verið efasemdarmaður um að það haldi einfaldlega gagnvart stjórnarskránni, að á stöðum þar sem megi finna fjarskiptatæki, þar á meðal síma, geti Póst- og fjarskiptastofnun farið inn án nokkurra heimilda dómstóla.

Ég hef sagt það áður og úr þessum ræðustóli að ég hef alltaf verið efasemdarmaður um að þetta ákvæði haldi, en þetta má finna í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun.

Af því að hv. þm. nefndi áðan hvort það væru einvörðungu einstaklingar sem verði beittir sektum, þá er ákvæðið þannig í lögum nú að fyrirtæki og einstaklingar verði beittir sektum en með þeirri leið sem við leggjum til, þ.e. með skýrari verkaskiptingu, þá eru fyrirtæki tekin út og þau verða einfaldlega aðeins beitt stjórnsýsluviðurlögum. Það má glöggt sjá þegar menn lesa í gegnum kaflann um samkeppnislögin. Það er m.a. gert í því skyni að tryggja að fyrirtæki verði ekki bæði beitt stjórnsýsluviðurlögum og hins vegar refsiviðurlögum eins og sektir eru. Ég held því að menn þurfi ekki að velkjast í neinum vafa um þennan þátt málsins.

Hér í þingsölum fyrir einhverjum missirum fór fram ágæt umræða um refsingar þar sem tekist var á um þá spurningu hvort refsingar almennt séu til þess fallnar að fæla fólk frá eða hafi þau varnaðaráhrif sem um er rætt. Það var að mörgu leyti ágæt umræða en í henni kom m.a. fram, þó ég hafi ekki á takteinum nákvæmlega hvaða greinargerð eða rannsókn það var, þá var það dregið fram mjög skýrt að í tilvikum þar sem um var að ræða --- ja, eins og það var kallað ef ég man rétt ,,hvítflibbabrot``, þá er talið að refsingar og hertar refsingar hafi meiri áhrif á þau brot heldur en önnur brot. Í þeirri umræðu voru menn almennt sammála um að svo væri og lögðu fram á sínum tíma greinargerðir og álit til að rökstyðja það. Ég lít svo á að hér sé á ferðinni svipað eða sambærilegt brot og því tel ég að þynging refsinga muni hafa áhrif á þessu sviði.

[17:00]

Ég vil einnig vekja athygli á því að Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, hefur hvatt eindregið til þess að allra leiða sé beitt til að tryggja það að samkeppni sé vernduð. Í skýrslu sem hún setti frá sér, fyrir líklega tveimur árum eða svo, dró hún fram sérstakt dæmi þar sem hún hvatti eindregið til þess að heimildin, eins og hér er lagt til, þ.e. heimild til að leita á heimilum stjórnenda, verði lögfestar. Dæmið sem fylgdi með í skýrslunni á sínum tíma var um gróft verðsamráð, verðsamráð fyrirtækja eða ,,cartel`` eins og það er stundum kallað. Upplýsingum um það hafði verið komið fyrir á tölvudisklingi og þessi tiltekni disklingur fannst á endanum á heimili ömmu eins stjórnandans. Þetta er kannski sérstætt dæmi, en það sýnir hversu langt menn eru tilbúnir að ganga til þess að beita þessum aðferðum.

Samkeppnin er fyrst og fremst í þágu almannahagsmuna og ég tel að við séum að vernda þá. Ég tel að þeir sem stunda verðsamráð séu í raun og veru stórbrotamenn, hér sé um mjög alvarleg brot að ræða. Því ef slík brotastarfsemi fær dafnað án þess að beitt sé öllum leiðum til þess að koma í veg fyrir hana, er í raun og veru verið að hafa stórfé af almenningi.

Ef til að mynda þær ásakanir sem fram hafa komið á hendur íslenskum olíufélögum eru réttar, held ég að menn geti ekki einu sinni gert sér í hugarlund hvaða fjárhæðir um er að ræða sem hafa farið úr vösum almennings sem hefðu ekki farið ef samkeppnin hefði verið eðlileg. Það hugsa ég að hlaupi á milljörðum króna.

Þannig menn sjá í hendi sér að þessi brot hafa miklu víðfeðmari og alvarlegri afleiðingar en mörg önnur sem við lítum mjög alvarlegum augum. Ég tel því mjög mikilvægt að menn fjalli um þessa brotastarfsemi á þann hátt sem hún á skilið.

Ég ætla svo sem ekki að fjalla frekar um það, menn hafa gert það hér í umræðunni, að innkoma þeirra manna hér á hið háa Alþingi sé dálítið sérstæð, þeirra sem lýstu því yfir í fjölmiðlum og opinberlega og víða að þeirra hlutverk væri fyrst og fremst að beita sér fyrir lækkun skatta. Þegar skattahækkunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar koma til afgreiðslu fá þeir tækifæri til þess að fella þau í atkvæðagreiðslu, því að þeir eru nægjanlega margir til þess að tryggja það að frumvörpin nái ekki fram að ganga.

Það eru mér einnig mikil vonbrigði ef næsta skref þeirra er í reynd að tala með þeim hætti að þeir telji samkeppnina ekki vera þess virði að hún sé vernduð með öllum tiltækum ráðum. Það eru mér líka mikil vonbrigði.

En við eigum eftir að sjá og fylgjast vel með framhaldi á þessu sviði sem mörgum öðrum.

Ég held, virðulegi forseti, að ég hafi farið yfir það sem fram hefur komið í þessari umræðu, reynt að svara því sem upp hefur komið og benda á dæmi sem rökstyðja það sem við leggjum til. Því segi ég það, virðulegi forseti, að lokum, að ég legg til að að lokinni þessari umræðu fari málið til efh.- og viðskn.