Samkeppnislög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 17:06:47 (554)

2003-10-14 17:06:47# 130. lþ. 10.5 fundur 9. mál: #A samkeppnislög# (meðferð brota, verkaskipting o.fl.) frv., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má svo sem taka undir það að skattamálin eru að sjálfsögðu ekki til umræðu, en á hinn bóginn held ég að það sé ekki djúpt í árinni tekið þó ég haldi því fram að hv. þm. og fleiri hafi gefið sig út fyrir það í opinberri umræðu að þeir séu hlynntir frelsi og lækkun skatta o.s.frv., að það séu þeirra grundvallarsjónarmið.

Þess vegna er merkilegt þegar reynir á þessi grundvallarsjónarmið að menn taki eftir því að afstaða þeirra er kannski ekki eins og menn hefðu álitið. En að sjálfsögðu taka menn afstöðu út frá sinni sannfæringu og ég ætla ekki að gera lítið úr þeim ákvörðunum sem þeir á endanum taka í sínum málflutningi.

En hv. þm. nefndi það einnig að hann hefði mikið álit á samkeppninni og vildi vernda hana. Í reynd er það þannig að við erum fyrst og fremst að undirstrika það. Frumvarpið og kannski hin heimspekilega hugsun á bak við það er fyrst og fremst að vernda samkeppnina. Það er hún sem er verndarandlagið í þessu.

Reyndar taldi ég lengi vel að ég og hv. þm. ættum þar að einhverju leyti samleið. Þess vegna verð ég að segja það alveg eins og er að það eru mér talsverð vonbrigði að verða var við þá afstöðu sem birtist í þessu máli, þó ég eigi kannski ekki að tala um skattamálin, ég man ekki til þess að hv. þm. hafi tjáð sig um það sérstaklega, en það skýrist síðar. Við getum þá alla vega sammælst um það að hugmyndin sé að reyna að tryggja það að samkeppnin slátri ekki sjálfri sér.