Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 17:12:21 (557)

2003-10-14 17:12:21# 130. lþ. 10.6 fundur 10. mál: #A meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög# (brottvísun og heimsóknarbann) frv., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[17:12]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er lagt fram á Alþingi frv. til laga um breytingu á tvennum lögum, annars vegar lögunum um meðferð opinberra mála og hins vegar á almennum hegningarlögum. Með þessu frv. er gert ráð fyrir því að lögfest verði sérstakt og sértækt úrræði til handa lögreglu sem ætlað er að vernda þá sem verða fyrir ofbeldi á heimilum. Úrræðið er fólgið í því að lögregla fái heimild til að fjarlægja ofbeldismenn af heimili sínu og banna þeim heimsóknir á heimilið og nánasta umhverfi þess í tíu daga til þrjá mánuði. Með lögfestingu þessa frv., teljum við flm. þess, sem eru allir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að stigið yrði mjög mikilvægt skref í baráttunni gegn heimilisofbeldi. Þannig þyrftu þeir sem beittir eru ofbeldi á heimilum ekki lengur að flýja heimili sín, eins og nú er, heldur yrði þeim sem brýtur af sér gert að yfirgefa heimilið samkvæmt ákvörðun utanaðkomandi aðila, þ.e. lögreglu.

Það er afar mikilvægt, herra forseti, að samhliða brottvísun og heimsóknarbanni, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir að verði í lög leitt, að hafa í huga að viðkomandi aðilar gætu þurft á hjálp að halda til að vinna sig út úr ofbeldinu og afleiðingum þess. Því er mikilvægt að fram fari nákvæm skoðun á því hvernig hið félagslega stuðningskerfi okkar er í stakk búið að axla þá ábyrgð sem þessi lagabreyting hefði í för með sér.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á réttarfarslögum, þ.e. lögunum um meðferð opinberra mála, nr. 19 frá 26. mars 1991. Sú breyting gerir ráð fyrir því eða skýrir hvenær heimilt er að beita þessari brottvísun með heimsóknarbanni. Það er lagt til að ákvæðið verði í sama kafla og ákvæði um nálgunarbann, enda er hér um að ræða náskylt úrræði þó að vægara sé. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að kaflaheitið breytist samfara þessu, að því verði breytt úr ,,nálgunarbann`` --- þetta er XIII. kafli A í lögunum um meðferð opinberra mála --- sem sagt að kaflaheitið breytist úr ,,Nálgunarbann`` í ,,Brottvísun, heimsóknar- og nálgunarbann``.

[17:15]

Í öðru lagi er gert ráð fyrir breytingu á almennum hegningarlögum. Sú breyting snýst um refsingu við brotum á ákvæðinu. Samkvæmt þessu frv. mun brot gegn brottvísun og heimsóknarbanni varða sektum.

Nú er það svo, herra forseti, að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst því yfir í skýrslum sínum að ofbeldi gegn konum sé eitt af alvarlegustu heilbrigðisvandamálum heimsins. Í upplýsingum frá stofnuninni kemur fram að fleiri konur missi heilsuna af völdum ofbeldis sem rekja má til kynferðis þeirra en af völdum malaríu, umferðarslysa og hernaðarátaka samanlagt. Vandamálið er alþjóðlegt og viðgengst jafnt í ríkum löndum sem fátækum. Fjöldi kannana hefur leitt í ljós að þeir sem ofbeldinu beita eru úr öllum stéttum og stigum þjóðfélagsins. Þær hafa einnig sýnt að algengasta mynd ofbeldisins er heimilisofbeldi þar sem gerandinn er yfirleitt kærasti, eiginmaður, ættingi eða góður kunningi konunnar sem fyrir ofbeldinu verður.

Kveikjan að þessu frv. er fengin frá Austurríki. Við erum ekki eina þjóðin sem höfum vaknað upp og kveikt á þeim hugmyndum sem Austurríkismenn hafa leitt í lög. Þeir gerðu það strax árið 1997. Það er ánægjulegt að segja frá því að bæði Norðmenn og Svíar hafa leitt sams konar ákvæði í lög hjá sér. Norsku lögin eru frá 10. jan. 2003 og þau sænsku tóku gildi 1. sept. 2003.

Eins og ég sagði er kveikjan upphaflega komin frá Austurríkismönnum sem lögfestu þetta úrræði 1997. Reynsla Austurríkismanna af þessu úrræði til handa lögreglu er afar jákvæð. Við fengum að heyra af reynslu Austurríkismanna á ráðstefnu sem haldin var hér í Reykjavík í ágúst árið 2001. Ráðstefnan bar yfirskriftina ,,Hinir óbifanlegu -- ofbeldismenn`` og var haldin á vegum samtakanna Norrænar konur gegn ofbeldi. Þar talaði einmitt austurrískur sérfræðingur, Rosa Logar, um þessi austurrísku lög, hvernig þeim var komið á og hver reynslan af þeim hefur verið.

Austurríkismenn tóku að hugsa sinn gang í þessum efnum þegar kvennaathvörf í landinu voru orðin 20 talsins. Talsverð umræða var um það að þau væru of fá, að þeim þyrfti að fjölga. Þá fóru menn að skoða málið. Ekki sakar að geta þess að það var að frumkvæði kvennahreyfinga. Menn fóru að skoða hvort eitthvað mætti betur fara í þessum málaflokki, hvort eðlilegt væri að kvennaathvörfum fjölgaði sífellt og hvort ekki mætti finna önnur úrræði. Menn spurðu hvort eðlilegt væri að þúsundir kvenna og barna væru á þennan hátt gerð að flóttamönnum í eigin landi vegna heimilisofbeldis.

Rosa Logar, sem talaði hér á ráðstefnunni, segir lögin í Austurríki hafa orðið til fyrir hálfgert kraftaverk. Hún átti varla orð til að lýsa því hvernig austurríska lögreglan hefði komið kvennahreyfingunum til hjálpar í að vinna þetta mál í hendur löggjafans. Það var mikið samstarf á milli kvennahreyfinga og austurrísku lögreglunnar. Fyrst og fremst átti að stuðla að fræðslu og þjálfun lögregluþjóna sem þurftu að taka á heimilisofbeldi. Segja má að störf austurrísku lögreglunnar og kvennahreyfinganna hafi leitt af sér vinnu evrópskrar kvennahreyfingar sem heitir Women against violence in Europe og er skammstöfuð WAFE. Þau samtök hafa upp á síðkastið og síðustu árin unnið mjög ötullega í baráttunni gegn heimilisofbeldi. Þau komu við sögu í vinnunni í Austurríki.

Þessi kvennahreyfing í Evrópu, WAFE, skilgreinir heimilisofbeldi sem mannréttindabrot. Það sem leiddi austurrísk yfirvöld á sporið í þessum efnum. Menn voru tilbúnir til að horfa á heimilisofbeldi sem mannréttindabrot gegn þeim sem fyrir ofbeldinu verða. Þannig eru það konurnar og börnin sem verða fyrir mannréttindabrotum og þar af leiðandi þurfa yfirvöld að leggja mikið á sig til að fækka mannréttindabrotunum. Austurríkismenn voru tilbúnir til að gera það sem í þeirra valdi stóð til að mannréttindabrot af þessu tagi viðgengjust ekki í landi þeirra.

Að sögn Rosu Logar varð austurríska lögreglan óvæntur bandamaður í þessari baráttu, hún viðurkenndi vanmátt sinn gagnvart ofbeldismönnunum og þótti skjóta skökku við að þurfa að skipa fórnarlömbunum að yfirgefa heimilið í lögreglufylgd meðan ofbeldismaðurinn gat sest aftur í sófann, hækkað í fótboltanum og fengið sér annan bjór. Ofbeldismaðurinn fékk að vera óáreittur í sínu umhverfi á meðan börnin og konurnar þurftu að fara, barin, út af heimilum og inn í athvarf. Þetta er grundvöllurinn og kveikjan að þessum hugmyndum, herra forseti. Ég tel afar mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að ástandið á Íslandi er ekki til fyrirmyndar í þessum málum.

Það má leiða að því sterk rök að ástandið hér sé afar svipað og í nágrannalöndum okkar. Ég læt mér nægja að vitna í upplýsingar úr ársskýrslu Kvennaathvarfsins frá árinu 2002. Í þeirri ársskýrslu segir að komur í Kvennaathvarfið hafi verið 435 það ár. Á bak við þá tölu eru reyndar ekki svo margar konur, þ.e. ekki 435 konur heldur 250 konur. Í Kvennaathvarfið komu 250 konur árið 2002 og margar oftar en einu sinni. Af þessum 250 konum voru 55 konur með líkamlega áverka við komuna. Í skýrslunni kemur einnig fram að 93% þessara kvenna séu fæddar á Íslandi og 91% gerendanna séu einnig fæddir á Íslandi. Við getum því ekki skellt skuldinni á aðkomufólk eða fólk af erlendum uppruna. Hér er um fólk af íslenskum uppruna að ræða sem verður fyrir ofbeldinu og karla af íslenskum uppruna sem eru gerendur.

Yngstu konurnar sem leituðu í athvarfið á síðasta ári voru 16 ára. Sú elsta var 71 árs. Hverjir voru gerendurnir? Jú, samkvæmt skýrslu Kvennaathvarfsins kemur í ljós að þeir eru eiginmenn og sambýlismenn í helmingi tilfella og fyrrverandi eiginmenn eða fyrrverandi sambýlismenn í 36% tilfella.

Árið 2002 dvaldi 41 barn í Kvennaathvarfinu, það yngsta var 5 mánaða og það elsta 19 ára. 39% þessara barna höfðu verið beitt ofbeldi samkvæmt skráningu athvarfsins en í ársskýrslunni er tekið fram að nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir því að börn og unglingar sem búa við heimilisofbeldi fari aldrei varhluta af því þótt þau hafi ekki verið beinir þolendur þess. Í flestum tilfellum var ofbeldismaðurinn faðir barnanna, eða í 76% tilfella.

Herra forseti. Af þeim upplýsingum sem lesa má í ársskýrslu Kvennaathvarfsins sést glöggt hversu alvarlegt ástandið er hér á landi og er skýrslan öll sterk hvatning til stjórnvalda um að halda stöðugt úti markvissu starfi gegn heimilisofbeldi. Við sem flytjum þetta frv. teljum að mál af þessu tagi mundi einmitt gera það, þ.e. efla markvisst starf gegn heimilisofbeldi.

Svo að ég víki aftur, herra forseti, að norsku og sænsku löggjöfinni má geta þess að áhugi Norðmanna og Svía á þessu máli og sú staðreynd að þeir hafa nú leitt sambærileg ákvæði í lög hefur vakið áhuga vítt og breitt um Evrópu. Það er ekki bara að Norðmenn og Svíar hafi leitt ákvæði af þessu tagi í lög heldur hafa þeir gert meira. Nægir þar að nefna ,,sænsku leiðina``, þ.e. leið sænsku ríkisstjórnarinnar til að berjast fyrir friðhelgi kvenna. Nokkur missiri eru síðan sænska ríkisstjórnin gerði öflugt átak í þeim efnum, u.þ.b. tvö ár, þar sem markvisst hefur verið unnið í öllum ráðuneytum Svíþjóðar að því að tryggja friðhelgi kvenna og umfram allt að vernda konur og börn gegn ofbeldi.

Norðmenn settu sér áætlun fyrir um tveimur árum síðan, um svipað leyti og Svíar en aðeins á öðrum nótum. Þeir gerðu ársáætlun fyrir árið 2002--2003 þar sem lögð var sérstök áhersla á að berjast gegn ofbeldi á konum. Sú áætlun gekk út á að styrkja alla þá sem tengjast ofbeldismálum, lögreglu, starfsmenn heilbrigðisþjónustu, athvörfin, það fólk sem starfar að barnaverndarmálum, félagsþjónustuna og alla starfsmenn sem koma að meðhöndlun ofbeldismála í kerfinu.

Þetta er svipað og Austurríkismenn gerðu. Þeir lögðu áherslu á, og Norðmenn hafa lært það, að mikilvægt er að þessar breytingar eigi sér stað á breiðum grunni. Markmiðið með svo breiðum aðgerðum er að styrkja öll þau úrræði sem fyrir eru. Líka þarf að huga að því að veita ofbeldismönnunum nauðsynlega meðferð til þess að takast á við ofbeldishneigð sína. Við skulum gera okkur grein fyrir því að flestir ofbeldismenn vilja losna úr vítahring ofbeldisins og taka, ef í boði er, fegins hendi allri meðferð.

Þurft hefur að leggja mikla áherslu á að aðstoða börn sem alast upp við fjölskylduofbeldi. Þessar nágrannaþjóðir okkar hafa gert átak til að aðstoða og styrkja konur sérstaklega og þá hefur sérstakri athygli verið beint að konum úr minnihlutahópum, t.d. innflytjendum eða konum sem eru af erlendu bergi brotnar. Þannig hafa heilbrigðisráðuneytið í Noregi, barnafjölskylduráðuneytið og dómsmálaráðuneytið unnið saman að þessu verkefni sem felur í sér undirbúning að sérstakri stofnun Ofbeldis- og áfallamiðstöðvar. Henni er gert að vinna að heildarsamræmingu þessara mála um allt landið og vera ráðgefandi fyrir alla þá sem tengjast meðferð þessara mála, jafnt frá heilbrigðislegu sjónarmiði, félagslegu sjónarmiði og lögfræðilegu. Ekki má gleyma fræðsluþættinum í þessu átaki. Norðmenn leggja afar mikla áherslu á að fræðsla sé í boði fyrir alla þá sem starfa á þessum vettvangi.

Ég held að það sé óhætt að segja að við höfum allar forsendur í löggjöf okkar og í íslensku stjórnarskránni til að setja lagaákvæði af þessu tagi. Það er jú kveðið á um það í stjórnarskránni að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Sömuleiðis erum við fullgildir aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu og þar eru ákvæði á sömu nótum.

Á síðustu árum hefur ýmislegt verið gert í löggjöf okkar til að bæta réttarstöðu þolenda afbrota. Lögum um meðferð opinberra mála í tengslum við nálgunarbann og réttarstöðu brotaþola í opinberum málum hefur t.d. verið breytt. Einnig má nefna ákvæði í lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Slík ákvæði hafa verið lagfærð til muna.

Hins vegar má segja að nálgunarbann sé úrræði sem ekki er beitt fyrr en rökstudd ástæða er til að ætla að viðkomandi brotamaður muni fremja afbrot eða á annan hátt stofna friði þess sem í hlut á í hættu. Það hafa svo sem komið fram í þingskjölum, í svörum við fyrirspurnum þingmanna, upplýsingar um hvernig nálgunarbanni hefur verið beitt. Á það er að koma ákveðin hefð og við erum að átta okkur á að það er úrræði sem er þénanlegt í þessu tilliti. Í frv. sem hér er til umræðu er í raun lagt til að lögfesta nokkuð vægara úrræði, tæki sem nýtist til skemmri tíma. Um leið má ætla að með því takist að taka á vandanum fyrr, á fyrstu stigum ofbeldisins.

Ákvæðið mundi veita lögreglu heimild til þess að vísa brott þeim sem beitir ofbeldi á heimili og banna heimsóknir hans á heimilið í tiltekinn tíma og er fyrst og fremst hugsað með sambúðarfólk í huga en getur átt við aðra á heimilinu, svo sem unglinga sem beita eða hóta að beita foreldra eða systkini sín ofbeldi. Einungis yrði heimilt að nota úrræðið við sérstakar kringumstæður þegar fjölskyldu ofbeldismanns eða öðrum stafar bein hætta af veru hans á heimilinu. Þannig þyrfti að fara fram hagsmunamat hjá lögreglu á því hvort viðkomandi mundi valda öðru heimilisfólki, hvort sem það væri sambúðarmaki, börn eða aðrir, alvarlegu tjóni, líkamlegu eða andlegu, eða brjóta á friðhelgi þeirra. Sérstaklega alvarlegar teljast kringumstæður þegar börn eiga í hlut enda hluti af markmiðinu með ákvæðinu að tryggja börnum fullnægjandi öryggi í uppeldi og forða þeim frá því að vera beitt ofbeldi eða þurfa að horfa á ofbeldi á eigin heimili. Hafa ber í huga þær afleiðingar sem slíkt getur haft á þau og hegðun þeirra síðar á ævinni. Börn sem alast upp við mikið ofbeldi gætu átt það til að temja sér slíka hegðun sjálf síðar á lífsleiðinni.

Hér er margs að gæta, herra forseti. En ég tel að í ljósi þess sem rakið er í greinargerð með frv. þessu sé ástandið þess eðlis hér á landi að brýn þörf sé á að Alþingi og hv. þingmenn ræði þessi mál ofan í kjölinn. Ég held að brýnt sé að skoða reynslu nágrannaþjóða okkar sem, eins og ég hef rakið, láta vel af reynslu af slíku ákvæði hjá sér. Ég tel að röðin sé komin að okkur að leiða í lög þetta úrræði fyrir lögregluna.

Ég óska eftir því, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.