Fæðingar- og foreldraorlof

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 17:55:01 (564)

2003-10-14 17:55:01# 130. lþ. 10.9 fundur 13. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (orlofslaun) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[17:55]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Efni þessa frv. sem hér er til umræðu um að greiða skuli orlofslaun af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði var tekið fyrir á síðasta þingi og í efh.- og viðskn. reyndar líka í sumar. Tildrög þess voru að ég hafði lagt fram fsp. til þáv. hæstv. félmrh. um framkvæmd á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og m.a. spurst fyrir um þessi réttindi sem eru taka orlofs og greiðsla orlofslauna eftir fæðingarorlof.

Svar hæstv. fyrrv. félmrh. var afar skýrt og afdráttarlaust en það kvað á um að ekki væri hægt að undanskilja ávinnslu á rétti til greiðslna í orlofi sem foreldri ávinnur sér í fæðingarorlofi frá öðrum starfstengdum réttindum og þar var bæði byggt á ákvæðum laga um þetta efni í orlofslögum og lögum um fæðingarorlof.

Í svari hæstv. ráðherra kom fram, með leyfi forseta:

,,,,Allir þeir, sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, eiga rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt reglum þessara laga.`` Í lögunum er kveðið á um ávinnslu lágmarksorlofsréttar en í 7. gr. segir: ,,Launþegi á rétt til orlofslauna í samræmi við áunninn orlofsrétt á síðasta orlofsári``.``

Síðan segir síðar í svari hæstv. þáverandi félmrh. til mín, með leyfi forseta:

,,Fyrir liggur að foreldrar ávinna sér rétt til orlofstöku í fæðingarorlofi samkvæmt orðanna hljóðan í 2. mgr. 14. gr. laga um fæðingar- og foreldrarorlof. Verður að ætla að um sé að ræða rétt til orlofstöku í skilningi laga um orlof. Með hliðsjón af framansögðu verður því ekki séð að unnt sé að undanskilja ávinnslu á rétti til greiðslna í orlofi sem foreldri ávinnur sér í fæðingarorlofi frá þeim starfstengdu réttindum sem fæðingarorlof skal reiknast til starfstíma við mat á.``

Þetta gæti ekki verið skýrara, herra forseti, en svo vildi til að eftir að þetta svar kom fram, og flestir töldu að þetta væri nægjanlega skýrt til þess að Tryggingastofnun greiddi út orlofsgreiðslur til þeirra sem hefðu fengið fæðingarorlof, þá brá svo við, herra forseti, að hæstv. fyrrv. félmrh. dró lappirnar og vildi láta skoða málið eitthvað nánar. Sjálfsagt hefur hann fengið skömm í hattinn í ríkisstjórninni fyrir þennan úrskurð, sem er auðvitað alveg óskiljanlegt vegna þess að hann er afar skýr og örugglega byggður á traustri og vel ígrundaðri skoðun lögfræðinga félmrn.

Þetta var nefnilega afar mikilvægur úrskurður, herra forseti, vegna þess að það er ekki hægt að búa við það að ekki séu greiddar orlofsgreiðslur eftir töku fæðingarorlofs. Það er reyndar svo að á hinum opinbera markaði, eða a.m.k. hjá flestum launþegum á opinbera markaðnum sem fara í fæðingarorlof að þá fá þeir greiðslur úr sérstökum sjóði, þ.e. orlofsgreiðslur eftir töku fæðingarorlofs sem þeir sem eru á almennum markaði fá ekki. Þarna er verið að mismuna fólki mjög sem tekur fæðingarorlof.

Við getum sett þetta í það samhengi hvað þetta þýðir vegna þess að það hafa margir komið að máli við mig og sagt að þeir hafi stytt orlof sitt af þeim sökum að þeir fengju ekki greiðslur í sínu orlofi. Þetta þýðir í raun og sanni að fólk á almennum vinnumarkaði hefur þrem vikum skemmra fæðingarorlof en þeir sem vinna hjá hinu opinbera. Það var litið til þess hve margir það væru frá því að nýju fæðingarorlofslögin tóku gildi, sem hefðu þá verið hlunnfarnir um orlofsgreiðslur miðað við þessa niðurstöðu hæstv. fyrrv. ráðherra, og það voru um tíu þúsund manns sem áttu inni hjá ríkinu a.m.k. 500 millj. kr.

Þetta mál var ekki útkljáð meðan fyrrv. félmrh. var í stóli ráðherra en ég batt svo sannarlega vonir við það að nýr hæstv. félmrh. tæki á þessu máli af mikilli röggsemi. Hæstv. ráðherra hefur gefið sig út fyrir það að vilja vinna að og sinna vel málefnum fjölskyldunnar og þetta er svo sannarlega stórt mál sem skiptir fjölskyldur miklu máli fyrir utan það að verið er að mismuna fólki á almenna markaðnum og opinbera markaðnum. En hæstv. ráðherra tók því miður þá afstöðu að taka í raun og veru enga afstöðu til þessa máls heldur að setja málið í einhverja heildarendurskoðun í tengslum við fjárvöntun í Fæðingarorlofssjóðnum. Ef þetta er réttur og sannur réttur þeirra sem eiga fæðingarorlof þá er ekki hægt að setja þetta í samhengi við fjárvöntun í sjóðnum.

Nú skal því haldið til haga að ráðherra hangir sjálfsagt í niðurstöðu sem úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála komst að sem kom vissulega á óvart, en úrskurðurinn stangaðist gersamlega á við álit lögfræðinga félmrn. sem fyrrv. félmrh. byggði niðurstöðu sína á í svari við fyrirspurn minni á Alþingi í maímánuði á þessu ári. Meðan staðan er með þessum hætti, herra forseti, þá er réttaróvissa uppi og hún verður ekki leyst nema fyrir dómstólum eða með lagabreytingum. Og þar sem málið er komið í þennan farveg sé ég ekki annað en að það sé réttast og eðlilegast að taka af skarið með því að samþykkja lög þar að lútandi þannig að það sé algerlega klárt og kvitt að greiða skuli orlofslaun af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Hinu vil ég halda til haga að ég er ekki sammála því að það þurfi endilega lagabreytingu vegna þess að ég var sammála þeim rökstuðningi sem fram kom í svari hjá fyrrv. félmrh.

Það var félmn. sem fjallaði um þetta mál og ég hugsa að það hafi verið eitt af fyrstu verkum hæstv. ráðherra í stól félmrh. að koma á fund nefndarinnar til þess að ræða þetta mál og hæstv. ráðherra, eins og ég nefndi áðan, vildi fella þetta inn í heildarendurskoðunina en félmn. skrifaði hæstv. ráðherra bréf þess efnis að hún óskaði eftir því að þessu tiltekna máli sem varðaði orlofsgreiðslurnar yrði sérstaklega flýtt. Ég hafði vonast til þess og lagði áherslu á það í starfi mínu í félmn. að afstaðan til þessa þáttar lægi fyrir hjá hæstv. ráðherra nú þegar þing kæmi saman. Þess vegna vil ég fagna því að hæstv. félmrh. er hér við þessa umræðu og vænti þess að heyra svör hans, í fyrsta lagi um afstöðu hans til þess hvort hann telji, alveg burt séð frá þessum úrskurði, ekki rétt að greiða orlofsgreiðslur eftir fæðingarorlof og hvort hann telji við það búandi að það sé mismunað á vinnumarkaðnum í þessu efni, annars vegar að greiddar séu orlofsgreiðslur hjá opinberum starfsmönnum en hins vegar ekki á almenna markaðnum.

Ég vænti þess, herra forseti, að við fáum skýr svör frá hæstv. ráðherra um þetta efni við þessa umræðu.