Fæðingar- og foreldraorlof

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 18:11:41 (569)

2003-10-14 18:11:41# 130. lþ. 10.9 fundur 13. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (orlofslaun) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[18:11]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig hafa komið skýrt inn á það áðan að skoðun mín er sú að aðilar vinnumarkaðarins hljóti að semja um þetta sín í milli rétt eins og starfsmenn ríkisins hafa gert við ríkið sem vinnuveitanda. Ég hef líka sagt að ef aðilar vinnumarkaðarins kæmu sér saman um að þessi breyting yrði gerð á lögunum þá mundum við að sjálfsögðu taka það til skoðunar. En við megum ekki gleyma því að Fæðingarlofssjóðurinn er fjármagnaður af tryggingagjaldi þannig að fjármögnun hans lendir með einum eða öðrum hætti á atvinnurekendum og/eða launþegum.

Hvað varðar spurningu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um hvort ég óttist að þetta geti orðið til þess að feður á almenna vinnumarkaðnum taki síður fæðingarorlof en aðrir, þá þori ég ekki að spá neinu um það. Sem betur fer hefur þróunin orðið sú að feður taka þetta orlof í mjög ríkum mæli og það er ástæða þess að við sjáum að það gengur hraðar á sjóðinn en ætlað var en sem betur fer virðist meginmarkmið laganna vera að ná fram.