Fæðingar- og foreldraorlof

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 18:20:14 (571)

2003-10-14 18:20:14# 130. lþ. 10.9 fundur 13. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (orlofslaun) frv., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Sumu hef ég verið sammála, öðru ósammála, eins og gengur. Sérstaklega var ég sammála því sem fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem nú situr á forsetastóli. Ég var hins vegar ósammála mörgu sem kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals nema lofgjörð hans um fæðingarorlofslögin frá árinu 2000. Ég er sammála honum um að með þeim var stigið mjög mikilvægt framfaraspor, að mínum dómi eitt það stærsta sem hér hefur verið stigið í félagslegum efnum í langan tíma.

Varðandi hæstv. ráðherra þá er gott að heyra að þessi mál séu til skoðunar, endurskoðunar og athugunar. En ég er honum hins vegar ósammála um að þessi lagabreyting sé ekki tímabær. Það kann að vera rétt sem kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að lagabreytingu þurfi ekki til. En staðreyndin er sú að við sitjum uppi með úrskurð Tryggingastofnunar og staðfestingu á honum frá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Hvert er meginefni málsins? Jú, fólk fer í fæðingarorlof. Það er mjög jákvætt. Það getur dvalið hjá ungum börnum sínum. En síðan vaknar það upp við þann vonda draum að þegar kemur að því síðar að fara í sumarfrí að þá er rétturinn fyrir hendi að fara í fríið en engar greiðslur koma. Það er launalaust frí. Þetta hefur komið sér afar illa, svo vægt sé til orða tekið, fyrir fólk á lágum launum. Ég hef rætt við marga sem hafa lent í þessu.

Við þetta getum við ekki búið. Þess vegna vænti ég þess að þetta mál fái skjóta afgreiðslu í félmn. Ég vona að þegar endurskoðunarmenn hæstv. félmrh. hafa farið í saumana á þessum málum þá verði þeir sammála mér og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það sé ráð og meira að segja gott ráð að breyta lögum og það hið allra fyrsta.