GATS-samningurinn

Þriðjudaginn 14. október 2003, kl. 18:23:15 (572)

2003-10-14 18:23:15# 130. lþ. 10.11 fundur 16. mál: #A GATS-samningurinn# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um úttekt vegna GATS-samningsins og breytinga á honum. Þessi þáltill. er í mörgum liðum.

Í fyrsta lagi viljum við --- og þegar ég segi við er ég að vísa til þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs því að við stöndum öll að þessu þingmáli --- að gerð verði úttekt á efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum áhrifum sem og umhverfisáhrifum GATS-samningsins á Íslandi, bæði miðað við núverandi stöðu og hugsanlegar afleiðingar samningsins til langs tíma. Hluti af þeirri rannsókn verði greining á lagalegri stöðu GATS-samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar gagnvart innlendum lögum og reglugerðum. Jafnframt verði kannað með hvaða hætti megi taka til endurskoðunar þær skuldbindingar sem Ísland hefur þegar undirgengist.

Í öðru lagi leggjum við til að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir að samningaviðræður Íslands og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar verði opnaðar fyrir almenningi, bæði hvað varðar upplýsingar og þátttöku. Leitað verði m.a. til verkalýðsfélaga og annarra hagsmunasamtaka, auk fulltrúa sveitarfélaga og stofnana eftir því sem við á.

Í þriðja lagi viljum við að í yfirstandandi samningsferli Íslands og annarra aðila Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar vegna GATS-samningsins verði engar heimildir veittar fyrir markaðsvæðingu velferðar- og grunnþjónustu samfélagsins. Ekki verði fleiri þjónustugeirar felldir undir GATS-samninginn án undangenginnar könnunar á efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum áhrifum sem og umhverfisáhrifum samningsins á íslenskt þjóðfélag og ekki fyrr en hlutdeild samtaka launafólks og annarra fulltrúa almennings í samningaviðræðunum hefur verið tryggð.

Þá leggjum við til að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir því að ákvæði 3. mgr. I. gr. GATS-samningsins verði skýrð á þann veg að engum vafa sé undirorpið að samningurinn nái ekki til almannaþjónustu og þjónustu á vegum hins opinbera. Lagt er til að c-liður 3. mgr. I. gr. verði felldur úr gildi og að fulltrúar Íslands beiti sér fyrir því á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Þá leggjum við til að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir því að þjónusta hins opinbera sem og þjónusta í almannaþágu verði í raun og veru undanskilin ákvæðum GATS-samningsins. Litið verði á rekstrareiningar á vegum hins opinbera sem heildstæðar í skilningi GATS. Þannig verði ekki hægt að færa þær í hlutum undir markaðsskuldbindingar GATS-samningsins.

Við viljum að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir því að orðalagi XXI. gr. verði breytt, þannig að sett verði inn málsgrein sem heimili ríkisstjórnum að fella brott þegar undirritaðar skuldbindingar í skuldbindingaskrá eða draga úr þeim að því tilskildu að það sé gert í þeim tilgangi að bæta almannaþjónustu eða þjónustu á vegum hins opinbera, án þess að hætta sé á að þær ákvarðanir kalli á skaðabætur samkvæmt reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Svo tryggja megi óskoraðan rétt ríkisstjórna til að setja lög og reglur og framfylgja þeim án hættu á lögsókn beiti ríkisstjórnin sér fyrir því að 4. mgr. VI. gr., þ.e. reglur á heimamarkaði, í GATS-samningnum verði endurskoðuð þannig að skýrt komi fram að umhverfisþættir og félagslegir þættir hafi forgang gagnvart ,,frjálsum viðskiptum``.

Þá leggjum við til að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir því að farvegur deilumála innan stofnunarinnar verði opnaður almenningi, bæði hvað varðar upplýsingar og þátttöku. Ríkisstjórnin vinni að því að dómstóll Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar leiti í auknum mæli til stofnana Sameinuðu þjóðanna til samráðs við úrlausn deilumála og að tekið verði tillit til samfélags- og umhverfissjónarmiða. Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni samþykki að meginsamþykktir Sameinuðu þjóðanna hafi forgang á viðskiptareglur.

Við viljum og að kröfur um lágmarksréttindi verkafólks eins og þær hafa verið settar fram á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar verði felldar inn í GATS-samninginn og aðra samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eftir því sem við á.

Þetta er efni þáltill., en ég tel að þessir samningar sem kenndir eru við GATS --- þetta er skammstöfun úr ensku, General Agreement on Trade in Services, þ.e. almennt samkomulag um verslun í þjónustu --- séu einhverjir mikilvægustu samningar sem nú fara fram á heimsvísu og að almannaþjónustunni stafi mikil ógn af þessum samningum.

Lengi vel fóru þessar samningaviðræður fram á bak við luktar dyr. En í seinni tíð hafa verkalýðssamtök og almannasamtök verið að þrýsta á um að fá þessar viðræður fram í dagsljósið. Það hefur gengið á ýmsu. Menn minnast mótmælaaðgerðanna í Seattle árið 1999 og síðar í Washington, Prag og Genúa á Ítalíu. Allt var þetta út af GATS-samningnum sem hér er verið að fjalla um.

Það óhuggulega við þennan samning er að ekki er hægt að stíga skrefið til baka. Ef menn á annað borð hafa undirgengist reglur GATS er ekki hægt að stíga skrefið til baka. Ríki sem reyna slíkt eiga á hættu að verða skaðabótaskyld. Við höfum núna verið í þeim farvegi að einstök ríki sem aðild eiga að GATS hafa verið að reisa kröfur hvert á hendur öðru og á vegum verkalýðshreyfingarinnar hefur verið unnið að því að fá upplýst hvaða kröfur hafa verið settar fram og hvaða ríki hafa sett fram slíkar kröfur. Þetta starf hefur að verulegu leyti hvílt á herðum BSRB. Það kom í ljós að Bandaríkjamenn, Indverjar og Japanar höfðu sett kröfur á hendur Íslendingum. Það fékkst ekki upplýst hvað hvert þessara ríkja hefði verið að fara fram á. Þó er vitað að þarna var verið að óska eftir því að við settum framhaldsmenntun og gott ef ekki bókasöfn einnig undir GATS-samningana.

[18:30]

Það var mikið uppistand í Bretlandi þegar upplýst var að framkvæmdanefnd Evrópusambandsins, sem fer með samningsumboðið fyrir hönd allra aðildarríkja Evrópusambandsins, hafði reist kröfur á hendur Kanadamönnum um að fá aðgang að vatnsmarkaði, neysluvatni í Kanada. Kanadamenn fóru fram á tilslakanir í landbúnaðarmálum, vildu koma korni á markað í Evrópu. Það gerist í öðrum samningum. Öll þessi samningaferli tengjast innbyrðis. Þeir höfðu farið fram á að fá niðurfellingu á tollum í korni og matvöru og Evrópusambandið svaraði þá fyrir sig og vildi komast inn á vatnsmarkaðinn í Kanada. Þetta eru þær viðræður sem fram hafa farið á bak við tjöldin.

Við skulum taka dæmi um þýðingu þessa. Við skulum segja að við föllumst á að setja bókasöfn undir GATS. Þá gætum við gert það í tveimur þrepum. Við gætum áskilið rétt gagnvart íslenskum bókasöfnum eða við gætum fellt öll bókasöfn almennt undir GATS. Þá þýddi það að erlendir aðilar sem vildu setja hér á fót bókasöfn, við skulum segja bandaríska sendiráðið eða trúfélög eða einhverjir aðilar, mundu reisa þá kröfu á hendur íslenska ríkinu að það styrkti þeirra safn á sama hátt og það styrkir Borgarbókasafnið eða Landsbókasafnið eða slíkt. Þetta var eðli og inntak svokallaðra MAI-samninga sem voru á vegum annars aðila, OECD, fyrir fáeinum árum. MAI er skammstöfun fyrir Multilateral Agreement on Investment og var mjög til umræðu í Evrópu. Það voru Frakkar sem stóðu harðast á móti þessu og það var franski kvikmyndaiðnaðurinmn sem stóð frammi fyrir svipaðri stöðu og ég er að lýsa um bókasöfnin. Ef Frakkar hefðu fallist á þetta samkomulag eða samkomulag hefði náðst um MAI, Multilateral Agreement on Investment, fjölþjóðasamkomulag um fjárfestingar, hefði ekki mátt mismuna fyrirtækjum sem seld eru undir eða starfa á sviði sem felld voru undir samninginn, kvikmyndaiðnaðurinn var þar á báti.

Ég vil nefna þetta sem dæmi um örlagaríkar ákvarðanir sem við erum að taka og hve mikilvægt það er að færa þessa umræðu og þessar ákvarðanir út úr embættismannaumhverfinu og inn á hið pólitíska svið. Þar geta menn deilt um hvað er rétt og hvað er rangt og hvað okkur ber að gera. En þessi umræða verður að fara fram fyrir opnum tjöldum. Allar þær tillögur sem við erum að setja fram miða að þessu, að opna umræðuna. Síðan viljum við að fulltrúar Íslands beiti sér fyrir því á vettvangi GATS að sníða af þessu alvarlegustu vankantana.

Hér var rætt af nokkrum hita í vor um vatnsveitur, hvort það ætti að heimila sveitarfélögum að einkavæða vatnsveitur. Það voru einhverjir sem sögðu sem svo: Á það ekki að vera undir lýðræðislegri stjórn sveitarfélaga komið hvað þær vilja gera? Mitt svar við því var neitandi. Hér vorum við að fjalla um mál, réttindi, sem voru svo mikilvæg kynslóðum framtíðarinnar að lýðræðislegur vilji á stuttu kjörtímabili gæti ekki svipt kynslóðir framtíðarinnar réttinum til þessarar auðlindar. Það er reyndar í grunnsamþykktum Sameinuðu þjóðanna kveðið á um réttinn til vatns og við vísum til þess í þessu samhengi, samhengi GATS-samninganna einnig.

Því nefni ég vatnið að við erum að fjalla um ákvarðanir sem eru óafturkræfar í reynd. Okkur ber að taka allar þessar ákvarðanir með opin augu og það hefur skort mjög á að svo væri gert. Sums staðar er þetta sveipað leyndarhjúpi eins og í Evrópu. Þar er það framkvæmdanefndin sem hefur haft þessa samninga með höndum. Ég verð þó að segja utanrrn. til hróss að það hefur verið mög samstarfsfúst í seinni tíð að bjóða mönnum til funda og upplýsa um gang mála, ekki síður en gerist held ég best annars staðar. Engu að síður er það svo að þessi umræða er mjög lokuð. Það var engin tilviljun að farið var með fundinn á sínum tíma til Doha í Katar. Það var til þess að forðast kastljósið, komast frá öllum þessum mótmælahreyfingum og þessari umræðu. Svo lýðræðislegir voru skipuleggjendurnir að þeir heimiluðu aðeins einn fulltrúa frá hverjum verkalýðssamtökum að sækja þann fund, jafnvel þótt þau samtök teldu tugi milljóna félagsmanna. Þetta hefur aðeins verið að skána í seinni tíð t.d. á fundinum í Cancun og ríkisstjórnir hafa fylgt því ráði að bjóða fulltrúum almannasamtaka og verkalýðssamtaka þátttöku í sínum sendinefndum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál að sinni. Ég tel þetta vera mjög brýnt mál. Það er mjög ítarleg greinargerð sem fylgir þessari þáltill. upp á margar síður. Fyrir þá sem hafa áhuga á því að kynna sér þessi mál tel ég að hún sé upplýsandi.

Svo ég gleymi því nú ekki ætla ég að mælast til að þessari till. til þál. verði vísað til utanrmn. Málið er á forræði utanrrn. og því eðlilegt að það fari til þeirrar nefndar.