Þingsályktunartillaga um afléttingu veiðibanns á rjúpu

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 13:33:06 (573)

2003-10-15 13:33:06# 130. lþ. 11.91 fundur 88#B þingsályktunartillaga um afléttingu veiðibanns á rjúpu# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Mörður Árnason:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna till. til þál. sem átján hv. þingmenn hafa borið fram um afléttingu veiðibanns á rjúpu. Þetta er nokkuð sérkennileg þáltill. Í fyrsta lagi vegna þess að ályktað er í henni að umhvrh. aflétti veiðibanni á rjúpu sem fyrst. Ég er nýliði hér á þinginu og átta mig þess vegna ekki á því hvernig þetta orðalag er til komið því að samkvæmt lögunum hefur umhvrh. fullan rétt til þess með afskiptum þingsins eða án þeirra hvað varðar þáltill. að aflétta þessu veiðibanni eða setja það á. Eins og réttilega er sagt í greinargerðinni hefur ráðherra í raun og veru ekki gert annað tæknilega en að nýta ekki heimild sem hún hefur í lögum. Ég sé þess vegna ekki hvernig till. til þál. á að breyta því.

Hins vegar var hæstv. umhvrh. með yfirlýsingar í gær í fjölmiðlum um viðbrögð sín við tillögunni sem ég hef ekki enn þá náð að skilja og ég óska þess vegna eftir að sem fyrst og áður en þessi tillaga kemur til umræðu á þinginu geri hæstv. umhvrh. okkur grein fyrir því hvernig hún ætlar að bregðast við.

Það er þannig, hæstv. forseti, að þær fimm tillögur sem flutningsmenn leggja til eru mjög mismunandi. Þrjár þeirra eru tillögur til ráðherra um ákveðnar aðferðir sem hún hefur í valdi sínu að breyta. Tvær þeirra gera hins vegar ráð fyrir að flutt sé frv. á þinginu ef á að ná þeim fram, annars vegar tímabundið sölubann og hins vegar hámarksveiði á hvern veiðimann sem eru tillögur sem mér finnst vel koma til skoðunar. Þess vegna spyr maður líka þingmennina átján: Hvers vegna flytja þeir ekki það frv. þegar? Er von á frv. um þetta tvennt áður en umræða fer fram, hæstv. forseti, um þetta mál, sem hefur þegar farið fram í samfélaginu? Ég tel mikilvægt að fá þetta upplýst.