Félags- og tómstundamál

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 13:43:34 (576)

2003-10-15 13:43:34# 130. lþ. 11.1 fundur 58. mál: #A félags- og tómstundamál# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin. Þau eru svo sem góð og gild svo langt sem þau ná. Hann nefndi ekki í svari sínu eina af tillögum nefndarinnar sem kemur fram í skýrslunni sem mér finnst nú eiginlega sú sem er mest áríðandi en hún varðar hugmynd nefndarinnar um að stofna sérstaka skrifstofu æskulýðs-, félags- og íþróttamála í menntmrn. Ég held að nauðsynlegt sé að stjórnvöld geri þessum málaflokki hærra undir höfði, t.d. með því að gera eitthvað slíkt og sjá til þess að stefna verði mörkuð til framtíðar, stefna um samstarfið milli þessara sjálfstæðu félagasamtaka sem hæstv. ráðherra nefndi í máli sínu, skólanna, félagsmiðstöðvanna og heimilanna.

Það er mjög nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því jafnframt að aðstaða sveitarfélaganna til að standa vel að vígi í þessu máli er mjög misjöfn. Þannig eiga smærri sveitarfélög mjög erfitt með að bjóða upp á jafnmarga eða öfluga valkosti og stærri sveitarfélögin gera, þannig að það þyrfti jafnvel að hugleiða hvort koma þyrfti til einhvers konar jöfnunarsjóður í þessu tilliti til smærri sveitarfélaganna.

Síðan eins og ég nefndi í ræðu minni, frú forseti, er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að stór fjöldi barna nýtir sér ekki tilboð íþróttafélaganna sem hafa þó úr langmestum fjármunum að spila. Það verður í sjálfu sér að tryggja að það barn sem velur sér tónlist sem lífsstíl hafi jafnmarga möguleika eða jafnöfluga og yfirgripsmikla möguleika og það barn sem velur sér að vera í íþróttum og þá á ég við varðandi stuðning frá hinu opinbera. Ekki er rétt að gera þannig greinarmun á vali barna hvað varðar tómstundaiðkun að íþróttirnar fái alltaf að bera höfuð og herðar yfir aðra tómstundaiðkun barna. Ég tel því mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að við verðum að sjá til þess að jöfnuður eigi sér stað jafnt með því að fjölga tækifærum barna og ungmenna og sömuleiðis að sjá um að fjármunirnir dreifist jafnar.