Félags- og tómstundamál

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 13:46:04 (577)

2003-10-15 13:46:04# 130. lþ. 11.1 fundur 58. mál: #A félags- og tómstundamál# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir áhugann á þessu máli vil ég taka fram að þau þrjú atriði sem ég nefndi sérstaklega í skýrslunni endurspegla að sjálfsögðu þau atriði sem ráðuneytið, undir minni stjórn, er að athuga sérstaklega. Þannig ætti ekki að fara á milli mála að hverju athygli okkar beinist.

Þó að það sé alveg rétt að íþróttamálin eru í mjög föstum farvegi og unglingar fái mikinn stuðning við félagsstarf sitt má ekki draga úr því merka starfi sem fram fer á vegum Ungmennafélags Íslands sem tekur raunar fyrir íþróttamál, félagsmál og menningarmál á mjög víðu sviði. Það skilar afar mikilsverðu starfi til æskulýðsmála og málefna þeirra sem hér eru til umræðu.

Einnig má nefna það sérstaklega að æskulýðsstarf kirkjunnar er viðamikið. Þegar litið er til allra þessara sviða og þessarar starfsemi í heild kemur í ljós að um mjög kröftugt starf er að ræða sem miklar vonir eru bundnar við. Sú stefnumörkun sem verið er að leggja drög að í skýrslunni miðar að sjálfsögðu að því að styrkja þessa starfsemi enn frekar.