Endurgreiðslubyrði námslána

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 13:48:01 (578)

2003-10-15 13:48:01# 130. lþ. 11.2 fundur 59. mál: #A endurgreiðslubyrði námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Lánasjóður íslenskra námsmanna er öflugasta tækið sem við höfum til að tryggja jafnan aðgang allra að námi. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í vor er þess getið að huga eigi að því að lækka endurgreiðslubyrði námslána og endurskoða lög um sjóðinn. Þetta var fagnaðarefni en ekki kom fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar hvernig hún hygðist ná þessu markmiði sínu. Þess vegna er tilefni til að spyrja hæstv. menntmrh. nánar um málið.

Eins og er er endurgreiðsla námslána tvíþætt, annars vegar föst greiðsla sem allir lánþegar verða að inna af hendi árlega. Hins vegar greiða þeir sem hafa yfir 1.250 þús. kr. árstekjur 4,75% af tekjum sínum að frádreginni föstu greiðslunni einu sinni á ári.

Fjöldamörg samtök, t.d. BHM og SÍNE, hafa í öflugri skýrslu sem gefin var út fyrr á þessu ári bent á hversu há endurgreiðslubyrði námslánanna er og hversu erfið hún reynist ýmsum. Í vor kynntu þessi samtök ásamt 14 öðrum hagsmunasamtökum skýrslu þar sem gerðar eru athugasemdir við þetta og farið fram á betrumbætur.

Endurgreiðsla námslána reynist mörgum erfiður róður. Þegar einstaklingur klárar langskólanám og er að koma sér fyrir í þjóðfélaginu þá er fólk eðli málsins samkvæmt skuldum vafið og hefur oft litlar tekjur. Það tekur sannarlega tíma fyrir fjölskyldur að byggja upp fjárhag sinn. Núverandi endurgreiðslubyrði kemur því mörgum í erfiðleika en fyrir suma er um að ræða ein mánaðarlaun á ári.

Þegar þau hjá BHM gáfu út þessa skýrslu sem ég nefndi þá gáfu þau út lítinn appelsínugulan pésa um meginatriði málsins. Á forsíðu þar stendur, með leyfi forseta:

,,Greiðendur námslána greiða sem svarar heilli útborgun mánaðarlauna til sjóðsins á ári.``

Það er ljóst, frú forseti, að lækkun á endurgreiðslubyrði námslánanna yrði kjarabót fyrir margar fjölskyldur í landinu. Aðallega hefur verið talað um tvær leiðir til að lækka endurgreiðslubyrði lánanna. Annars vegar hefur verið rætt um að lækka endurgreiðslubyrðina sjálfa úr 4,75%, niður fyrir 4%, t.d. í 3,75%, eða að gera endurgreiðslubyrðina frádráttarbæra frá skatti. Það er orðið tímabært, frú forseti, að heyra hvaða leiðir stjórnvöld telja færar í þessum efnum.

Spurningin sem ég legg fyrir hæstv. ráðherra er sem sagt svohljóðandi:

,,Á hvern hátt hyggst ríkisstjórnin nálgast það verkefni, sem getið er í stefnuyfirlýsingu hennar, að hugað verði að lækkun endurgreiðslubyrði námslána og hvar er vinnan við framkvæmdina á vegi stödd?``