Endurgreiðslubyrði námslána

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 13:55:31 (580)

2003-10-15 13:55:31# 130. lþ. 11.2 fundur 59. mál: #A endurgreiðslubyrði námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að taka upp þetta mál. Það virðist sannarlega ekki vanþörf á að halda ríkisstjórninni við efnið. Margt bendir til að hér sé enn eitt kosningaloforðið á ferðinni sem sé í þann veginn að gufa upp. Það má reyndar segja að það hafi tekið að gufa strax í vor því að orðalagið sem rataði inn í stjórnarsáttmálann var óskaplega aumlegt og loðið miðað við digrar yfirlýsingar margra frambjóðenda stjórnarflokkanna í aðdraganda alþingiskosninga.

Við minnumst þess mjög sem vorum í framboði í Norðaust. að einn af nýjum frambjóðendum Framsfl. þar fór mikinn, skammaði reyndar samstarfsflokkinn fyrir linku og aumingjaskap í málefnum lánasjóðsins og lofaði miklum úrbótum ef hin nýja kynslóð framsóknarmanna kæmist á þing. Hér er ég að vitna til hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur.

Svo ratar ekki meira en þessi loðmulla inn í sjálfan stjórnarsáttmálann og við heyrðum í hvaða gír hæstv. menntmrh. var hér. Það var einn áfram og þrír aftur á bak. Þetta er allt svo erfitt með fjárahg sjóðsins. Auðvitað er það það. Þetta er flókið mál. En það breytir ekki því að ef menn eru að gefa undir fótinn með úrbætur af þessu tagi eins og stjórnarflokkarnir gerðu fyrir kosningar þá verða þeir að sýna einhvern lit í að standa við það.