Endurgreiðslubyrði námslána

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:02:15 (586)

2003-10-15 14:02:15# 130. lþ. 11.2 fundur 59. mál: #A endurgreiðslubyrði námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að mönnum er mikið niðri fyrir út af þessu máli. Þá er rétt að minna á það að hagur lánþega Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur farið batnandi á hverju ári. Kjörin hafa verið bætt árlega. Það byggist á því að lánasjóðurinn er traustur. Hann nýtur þess að hafa traustan grundvöll og það eru einmitt forsendur þess að hægt verði að grípa til ráðstafana af því tagi sem hér hefur verið um rætt, þ.e. að skoða lækkun á endurgreiðslubyrði námslánanna, öfugt við það sem var í eina tíð, áður en fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum. Þá höfðu menn gerst mjög örlátir í garð námsmanna en á kostnað sjóðsins. Menn hleyptu sjóðnum í lántökur og skáru niður framlög til hans. Slíkar aðgerðir vænti ég að allir þeir sem hér eru inni í þessum sal geti sammælst um að séu ekki traustar aðgerðir, enda fór talsverður tími í það að vinna Lánasjóð ísl. námsmanna út úr því umhverfi sem hann var þá kominn í, og þeim vandræðum. Nú er það hins vegar viðurkenning á því að sjóðurinn sé traustur að menn vilji huga að þessu og því fer víðs fjarri að ekkert sé verið að gera í málinu. Það er einmitt verið að skoða þessar forsendur en hér í máli mínu lagði ég einungis áherslu á að það ber að skoða forsendurnar vel og vandlega en einmitt ekki ganga í málin í flumbrugangi eins og gert var á sínum tíma og hleypa sjóðnum í vandræði sem af því leiddu.