Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:26:03 (595)

2003-10-15 14:26:03# 130. lþ. 11.5 fundur 120. mál: #A Íþróttamiðstöð Íslands að Laugarvatni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég harma að það skuli ekki vera í endanlegum tillögum hæstv. menntmrh. að héraðsskólahúsið verði tekið inn í fyrirhugaðar fyrirætlanir um Íþróttamiðstöð Íslands. Valkostur A frá þessari nefnd sem síðast skilaði gerir ráð fyrir því að farið verði í endurbætur á Héraðsskólanum upp á 158 millj. og hann sinni þar viðamiklu hlutverki í Íþróttamiðstöð Íslands.

Það er löngu orðið tímabært að ráðuneytið geri upp við sig hver framtíð þessarar byggingar á að vera. Þetta er hluti af menningu okkar og sögu, þetta hús, og þetta er í raun og veru hjarta þessa staðar, Laugarvatns.

Ég fagna þó því að tekin hefur verið ákvörðun um að styrkja Íþróttamiðstöð Íslands og með því framlagi sem fyrirhugað er á fjárlögum en minni á að niðurstöður tillögunnar gera ráð fyrir endurbótum á húsnæði Íþróttamiðstöðvarinnar upp á 103 millj. Það er því langt því frá, eftir allar þessar skýrslur, alla þessa nefndarvinnu, að verið sé að taka með myndarlegum hætti á uppbyggingu Íþróttamiðstöðvar Íslands að Laugarvatni.

Mig minnir reyndar að það hafi verið tekið með mun meira afgerandi hætti á því þegar talað var um og ákveðið að byggja upp Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Norðurlandi. Af einhverjum ástæðum hefur ekki vafist fyrir menntmrn., starfsmönnum þar eða hæstv. ráðherra, að ljúka því máli. Ég skora á hæstv. ráðherra sem á nú bara eftir að vera örfáa mánuði í þessu embætti að ljúka því með þeim hætti að allir geti vel við unað og að menning og saga þessa staðar að Laugarvatni verði virt með því að tekin verði ákvörðun um framtíð héraðsskólahússins líka.