Lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:41:06 (601)

2003-10-15 14:41:06# 130. lþ. 11.4 fundur 102. mál: #A lífeyrisskuldbindingar Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir að brýna mig í þessu hlutverki. Ég vil hins vegar vekja athygli þingheims á einu. Ef litið er yfir lífeyrisskuldbindingar hins opinbera almennt þá hljóta allir og jafnvel hinir ósanngjörnustu að viðurkenna að þar hefur mikið breyst til batnaðar frá því sem var, þar sem stjórnvöld hafa lagt til hliðar mikla fjármuni til að standa undir þeim skuldbindingum sem ríkið tekur á sig vegna lífeyrissjóða. Ég held að menn eigi að líta á það sem gerðist í Þjóðleikhúsinu og það sem er væntanlega að gerast í sambandi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem koma reyndar að fleiri rekstraraðilar þannig að það er flóknara verkefni en tengist einnig Ríkisútvarpinu, að verið sé að taka á þessum málum í heild. Þetta er liður í gífurlega mikilli uppstokkun á lífeyrismálum hins opinbera, sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa tekist á við og hægt hefur verið að takast á við vegna þess hvernig þróun ríkisfjármála hefur verið þar sem menn hafa verið að leggja mikið til hliðar í ríkisfjármálum. Það hefur verið afgangur á ríkisfjármálum. Hann hefur verið notaður til þess að byggja upp þessar sterku stoðir, sem er í raun og veru eðlilegt vegna þess að Íslendingar í heild eru að byggja upp mjög sterka stöðu í lífeyrissjóðum sem marka sér nokkra sérstöðu í Evrópu. Þarna fer saman viðleitni hins frjálsa markaðar og ríkisins.