Niðurstaða ráðherranefndar um fátækt

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 14:46:06 (603)

2003-10-15 14:46:06# 130. lþ. 11.6 fundur 78. mál: #A niðurstaða ráðherranefndar um fátækt# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beinir til mín spurningum um niðurstöðu ráðherranefndar um fátækt. Því er til að svara að ríkisstjórnin fól í janúar á þessu ári starfshópi á vegum forsrn., félmrn., heilbr.- og trmrn. og fjmrn. það verkefni að leitast við að skilgreina fátækt hér á landi, greina þá hópa sem kynnu að falla undir þá skilgreiningu og benda á leiðir sem komið gætu að gagni við að draga úr fátækt. Í starfshópnum sitja Gunnar Haraldsson frá forsrn., sem hefur leitt þetta starf, Ingibjörg Broddadóttir úr félmrn., Magnús Skúlason úr heilbr.- og trn. og Fjóla Agnarsdóttir frá fjmrn. Starfshópurinn hefur komið margsinnis saman og lagt töluverða vinnu í öflun gagna. Hér var ekki um formlega skipaða nefnd að ræða, heldur samstarfshóp ráðuneyta. Hópurinn hefur í fyrsta lagi beint sjónum sínum að því að skilgreina fátækt hér á landi og skoða tekjudreifingu þjóðarinnar. Hann hefur aflað upplýsinga um greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins, Atvinnuleysistryggingasjóðs og Félagsþjónustunnar í Reykjavík til einstaklinga og fjölskyldna, svo og kynnt sér heildargreiðslur fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga á landsvísu. Staða atvinnulausra og öryrkja svo og kjör einstæðra foreldra hafa fengið nánari athygli en aðrir hópar í þessu starfi.

Þess má einnig geta að sé litið til fjölskyldugerðar eru konur með börn annar fjölmennasti hópurinn sem leitar eftir fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna, en eins og mönnum er líklega kunnugt um eru einstæðir karlar án barna fjölmennasti hópurinn. Greining á þeim hópum sem leita til félagsþjónustu sveitarfélaganna getur gefið okkur nokkuð góða vísbendingu um það hverjir það eru sem búa við bágust kjörin.

Virðulegi forseti. Fyrir liggja drög að skýrslu þessa starfshóps, eftir er hins vegar að leggja á hana lokahönd. Í skýrslunni mun m.a. verða greint frá leiðum til úrbóta. Ég get hins vegar því miður ekki gert nánari grein fyrir störfum hópsins hér og nú. Þessi skýrsla er væntanleg um miðjan næsta mánuð, þá gefst okkur kostur á að greina nánar frá þeim upplýsingum sem hópurinn hefur tekið saman og tillögum hans til úrbóta.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum geta þess að það er mín skoðun að okkur beri að leita allra leiða til þess að bæta stöðu þeirra sem lægst hafa launin, ekki síst þeirra sem glíma við langtímafátækt og barnafjölskyldna sem hafa lágar tekjur.