Fæðingarorlofssjóður

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:09:17 (616)

2003-10-15 15:09:17# 130. lþ. 11.7 fundur 80. mál: #A Fæðingarorlofssjóður# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Frú forseti. Ég var svo hugsi yfir svari hæstv. félmrh. að ég tók ekki eftir að það væri komið að mér.

Gott og vel. Hópur embættismanna er í málinu. Við höfum heyrt það áður í dag, frú forseti. En það sem skiptir mestu máli er að pólitísk leiðsögn hæstv. ráðherra sé í lagi.

Þörf er á að herða eftirlit með því hvernig greiðslur eru metnar eða teknar úr sjóðnum. Til dæmis má athuga hvernig laun eru metin, hvort tekið er nógu langt tímabil hjá fólki til að fá meðallaun sem síðan eru greidd út í fæðingarorlofi. Ýmislegt annað mætti hafa í huga. Ég vil benda hæstv. félmrh. á að það er þak núna, 80% þak. Þeir sem hafa séð ofsjónum yfir greiðslum úr sjóðnum hafa kannski ekki allir gert sér grein fyrir því að örfáir milljón króna menn auka þarna útstreymið með þeim hætti sem raun ber vitni. Eins og ég kom inn á í máli mínu áðan endurspeglar það aðeins þann launamun sem fyrir er í samfélaginu því að meðalgreiðslur til mæðra eru um 150 þús. kr., til feðra 250 þús. kr., rúmlega.

Það er mikilvægt að fá um það skýr svör frá hæstv. félmrh. hvort hann hyggist með einhverjum hætti eiga við grunngerð sjóðsins. Það skiptir mjög miklu máli fyrir þau áhrif sem hann kann að hafa og hefur haft á vinnumarkaðnum, ekki síst á stöðu kvenna á vinnumarkaði.