Fæðingarorlofssjóður

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:11:14 (617)

2003-10-15 15:11:14# 130. lþ. 11.7 fundur 80. mál: #A Fæðingarorlofssjóður# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og svara hv. þm. skýrt. Ég hef sem félmrh. ekki í hyggju að gera tillögur um grundvallarbreytingar á þessum lögum. Það sem við erum að skoða, eins og ég rakti áðan, er fyrst og fremst hvort gera þurfi einhverjar breytingar á reglunum til að bregðast við þeirri stöðu sem blasir við, að sjóðurinn muni ekki hafa úr nægu fjármagni að spila þegar fram í sækir. Eins og hv. þm. rakti kann að vera rétt að gera þarna ákveðnar breytingar á reglum en grundvallarbreytingar á þessum lögum, sem ég tel að við séum öll sammála um að hafi gengið fram með mjög góðum hætti og skilað okkur þeim árangri sem að var stefnt, mun ég ekki gera tillögur um.