Kostnaður sveitarfélaga vegna atvinnuleysis

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:12:23 (618)

2003-10-15 15:12:23# 130. lþ. 11.8 fundur 113. mál: #A kostnaður sveitarfélaga vegna atvinnuleysis# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Við höfum í dag rætt um fátækt og fyrir stuttu var í sölum Alþingis rætt um breytingar á atvinnuleysisbótum, að lækka þær og fella niður greiðslur fyrstu þrjá dagana. Farið hefur verið yfir hvaða áhrif það hefur á þá sem búa við langvarandi atvinnuleysi. Það er búið að fara yfir að það getur valdið verulegum heilbrigðisvandamálum, félagslegri einangrun og/eða einelti. Námsgetu barna í skólum getur hrakað, vanskilaskuldir heimilanna vaxa og vandamál þeirra yfirleitt.

Við erum búin að fara yfir þetta allt. Við erum búin að fara yfir það að ekki sé hægt að miða við það hvernig staðið er að málum á öðrum Norðurlöndum að einu leyti, þ.e. að fella niður greiðslur fyrstu dagana í atvinnuleysinu, á meðan við bjóðum ekki upp á sambærilegar atvinnuleysisbætur og greiddar eru í þeim löndum.

En einn þáttur er mjög sjaldan ræddur, þ.e. áhrif atvinnuleysis. Við erum búin að fara yfir hvaða áhrif þetta hefur á efnahag heimilanna. En á ferðum mínum í sumar --- reyndar einnig áður í heimsóknum til sveitarfélaganna --- hefur komið æ betur í ljós, ekki síst nú þegar fjárhagsstaða margra sveitarfélaga er mjög bágborin, að viðvarandi og mikið atvinnuleysi, jafnvel þó að atvinnuleysistölurnar séu ekkert mjög háar, hefur verulega áhrif á útgjöld sveitarfélaganna. Þá er ég ekki bara að tala um atvinnuskapandi aðgerðir sem mörg sveitarfélög fara út í heldur að útgjöld félagsþjónustunnar aukast verulega. Þess eru dæmi í sveitarfélögum að þær deildir sem sjá um félagslega þætti innan sveitarfélaga hafi sótt um aukafjárveitingar á þessu ári upp á tugi milljóna króna, fyrst og fremst vegna þess að atvinnuleysi í viðkomandi sveitarfélagi er mikið og aðstæður fjölskyldna þannig að þær þurfa að leita á náðir félagsmálastofnana mun meira en áður.

Þess vegna leyfi ég mér á þskj. 113 að bera fram fsp. til hæstv. félmrh.:

Hafa verið teknar saman upplýsingar um beinan og óbeinan kostnað sveitarfélaga vegna atvinnuleysis, þar með talinn kostnað við atvinnuskapandi aðgerðir og aukna félagslega aðstoð í kjölfar atvinnuleysis? Ef svo er, hver var niðurstaða þeirrar samantektar? Ef svo er ekki, mun ráðherra beita sér fyrir því að þessar upplýsingar verði teknar saman?