Hafrannsóknir á Svalbarða

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:34:05 (628)

2003-10-15 15:34:05# 130. lþ. 11.9 fundur 82. mál: #A hafrannsóknir á Svalbarða# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Þó að ég vilji kannski ekki nota orðfæri hv. 9. þm. Suðurk. er það rétt hjá honum að það er mjög margt í náttúrunni sem við Íslendingar höfum ekki haft bolmagn til þess að rannsaka en áhugavert hefði verið að gera. Það er auðvitað takmarkað hvað við getum fengist við á hverjum og einum tíma og við þurfum að forgangsraða vegna þess að fjármunirnir eru takmarkaðir.

Hins vegar, eins og hann nefndi, eru heimskautarannsóknir mjög fjölþættar rannsóknir. Hann tiltók sérstaklega olíurannsóknir sem eru út af fyrir sig ekki á starfssviði sjútvrn. þó að þeir þættir sem hv. 5. þm. Norðvest. nefndi séu að stærstum hluta til á starfssviði sjútvrh. og eins það sem hv. 4. þm. Suðvest. nefndi í sínum lokaorðum.

Ég vil að lokum þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli okkar á þessu. Við höfum þegar gert ráðstafanir til þess að fá um þetta frekari upplýsingar og leita þeirra leiða sem nauðsynlegt er að finna til þess að geta tengst þessu og nota þau tækifæri sem okkur munu hugsanlega bjóðast þarna í samræmi við þær áætlanir og það fjármagn sem stofnanir okkar munu hafa á hverjum tíma.