Stuðningur við kræklingaeldi

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:35:52 (629)

2003-10-15 15:35:52# 130. lþ. 11.10 fundur 107. mál: #A stuðningur við kræklingaeldi# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Hinn 10. mars 1999 samþykkti Alþingi þáltill. um stuðning ríkisvaldsins við kræklingarækt og annan ,,fjörubúskap``. Flm. tillögunnar þá voru hv. þm. Ólafur Hannibalsson og Guðjón Guðmundsson. Á vegum landbrn. var síðan unnið að rannsóknum á möguleikum kræklingaræktar hér á landi í samstarfi við nokkra aðila sem þegar höfðu farið af stað og þar voru rannsökuð bæði ýmis umhverfismál og einnig ræktunartæknileg atriði. Þessar rannsóknir hafa sýnt að arðsöm kræklingarækt er vel möguleg hér á landi en kræklingaræktin er sjálfbær þannig að ekki þarf að fóðra kræklinginn sérstaklega, heldur vinnur hann fæðu sína úr sjónum.

Nokkrir aðilar stunda nú kræklingarækt hér á landi, má þar nefna í Arnarfirði, Eyjafirði og Mjóafirði, en fyrir um ári lagði sjútvn. einróma til að veitt yrði fjármagn til stuðnings kræklingarækt og til að styðja við þá búgrein til að koma henni á laggirnar.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár samþykkti Alþingi 5 millj. kr. fjárveitingu til stuðnings kræklingarækt í landinu. Þessi grein er á gjörsamlegu frumkvöðulsstigi og hana sárvantar fjármagn til að stíga fyrstu skrefin. Þó nokkur innanlandsmarkaður er fyrir hendi og útflutningsmöguleikar eru talsverðir. Í samtölum við kræklingaræktendur kemur fram að þessum litlu fjármunum sem veitt var á fjárlögum þessa árs hefur ekki enn verið úthlutað til greinarinnar og þeim finnst reyndar sjútvrn. sýna kræklingarækt nokkurt tómlæti.

Í Eyjafirði er nú búist við að taka megi uppskeru sem svarar 15--20 tonna framleiðslu á þessu ári og hátt á annað hundrað tonn á næsta ári ef vel gengur. Þar hafa menn lagt út 60 km línu sem kræklingurinn festir sig á. Á Bíldudal er reiknað með að megi uppskera um eitt til tvö tonn í ár en eftir næsta ár geti uppskeran farið að skipta tugum tonna.

Það er því ljóst að hér er á ferðinni umtalsverður atvinnuvegur, umtalsverðir möguleikar sem geta orðið drjúg búbót og drjúgur stuðningur við þá atvinnu sem er í viðkomandi byggðarlögum vítt og breitt meðfram ströndum landsins.

Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. sjútvrh.:

1. Hvernig hefur verið ráðstafað þeim 5 millj. kr. sem ákveðið var að verja til stuðnings kræklingaeldi í fjárlögum fyrir árið 2003?

2. Hyggst sjávarútvegsráðuneytið beita sér fyrir enn frekari stuðningi við þessa nýju atvinnugrein, og þá hvernig?