Vinnsla kalkþörungasets

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:51:43 (636)

2003-10-15 15:51:43# 130. lþ. 11.12 fundur 126. mál: #A vinnsla kalkþörungasets# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það urðu mér vonbrigði þegar spurðist að írskir samstarfsaðilar heimamanna á Bíldudal um vinnslu kalkþörunga í Arnarfirði hefðu ákveðið að halda að sér höndum í bili a.m.k. og hefja ekki vinnslu eins og fyrirhugað hafði verið. Ég er alveg sammála því sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að vinnsla kalkþörunga á sunnanverðum Vestfjörðum mundi efla mjög atvinnu og styrkja búsetu á sunnanverðum Vestfjörðum. En þegar þetta lá fyrir fól ég fulltrúum mínum í stjórn Fjárfestingarstofunnar að kanna hvort stofan gæti með einhverjum hætti komið að þessum málum. Eftir viðræður við framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða sem reyndar er einn stjórnarmanna í Fjárfestingarstofunni var samþykkt í stjórn Fjárfestingarstofunnar að stofan mundi taka málið til meðferðar og meta með hvaða hætti best væri að þoka því áfram og eftir atvikum aðstoða atvinnuþróunarfélagið við að leita að nýjum samstarfsaðilum. Samkvæmt upplýsingum frá Fjárfestingarstofunni hefur þegar verið leitað til bandarísks ráðgjafarfyrirtækis sem sérhæft hefur sig í ráðgjöf fyrir matvælaiðnaðinn. Er verið að fara yfir frumgögn frá ráðgjafarfyrirtækinu til þess að unnt sé að meta hvort fara eigi út í frekara samstarf við það eða leita annað.

Ég vil á þessari stundu ekki vekja falskar vonir um að vinnsla kalkþörunga úr Arnarfirði verði hafin innan nokkurra vikna, en það er ljóst að lítt unnir kalkþörungar keppa á markaði þar sem er að finna margar aðrar vörur sem nothæfar eru í sama eða svipuðum tilgangi þar sem verð stjórnar alfarið eftirspurn. En helsta vonin til þess að unnt sé að tryggja stöðuga og arðbæra vinnslu úr Arnarfirði er að vinna hráefnið frekar en til að kanna slíka möguleika þarf bæði tíma og fjármuni.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan að þegar hefur verið hafin vinna við að kanna möguleika á að ná árangri í þessum efnum. Ég get bætt því við að í iðnrn. hefur verið tilbúið leyfi vegna þessarar vinnslu um nokkurt skeið. Það stendur ekki á því.