Vinnsla kalkþörungasets

Miðvikudaginn 15. október 2003, kl. 15:54:22 (637)

2003-10-15 15:54:22# 130. lþ. 11.12 fundur 126. mál: #A vinnsla kalkþörungasets# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég er sammála hæstv. iðnrh. að þróunin varðandi þessa kalkþörungaverksmiðju við Arnarfjörð er því miður vonbrigði. Hún er vonbrigði vegna þess að atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum hefur átt undir högg að sækja síðustu tvo áratugina og kalkþörungaverksmiðja á Bíldudal og líka kræklingaeldi í Arnarfirði gætu verið aukagreinar sem mundu hjálpa þeim byggðum. En við skulum heldur ekki gleyma því að aðalástæðan fyrir því að þessar byggðir hafa farið svo halloka er náttúrlega sú að þær hafa misst nýtingarrétt sinn á helstu auðlindinni sem er fiskurinn í sjónum.

Ég er hér með skýrslu sem unnin var fyrir Íslenska kalkþörungafélagið sem mig langar til að lesa aðeins úr fyrir hæstv. iðnrh. sérstaklega í ljósi ummæla hennar um daginn fyrir tveimur dögum um það að tilfærsla aflamarks hefði ekki haft áhrif á búsetu fólks. Þar stendur um neikvæða þróun í búsetu fólks á sunnanverðum Vestfjörðum:

,,Til að tryggja afkomu sína hefur þetta fólk flutt á önnur landsvæði sem hafa upp á næga atvinnu að bjóða. Því segja tölur um atvinnuleysi ekki nema hluta sögunnar, því hluti þeirra sem annars væru atvinnulausir hafa leyst vandræði sín með flutningi á önnur landsvæði.``