Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 10:32:40 (642)

2003-10-16 10:32:40# 130. lþ. 12.91 fundur 89#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[10:32]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Í þingbyrjun lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hvernig rökstyður ráðherra þá ákvörðun að reikna þátttöku Íslands í borgaralegri friðargæslu sem framlag landsins til þróunarsamvinnu?``

Svar barst við fyrirspurninni í vikunni og ég kem hér upp, hæstv. forseti, til þess að vekja athygli á því hversu rýrt og efnislítið þetta svar er. Ég hafði hreinlega búist við því að hæstv. utanrrh. mundi rökstyðja þessa ákvörðun sína betur en hér er gert. Hér fylgir ekki einu sinni skilgreining þróunaraðstoðarnefndar OECD um það hvers vegna borgaraleg friðargæsla skuli reiknast sem þróunarsamvinna og ég hefði haldið að það væri grunnskilyrði þess að hægt væri að svara spurningunni.

Ég sé það, hæstv. forseti, að ég verð að spyrja spurningarinnar aftur og kannski í fleiri liðum til þess að fá viðunandi svör, en ég vil vekja athygli á þessum vinnubrögðum og lýsa yfir vonbrigðum mínum með að geta ekki fengið skýr svör við mjög skýrum og einföldum spurningum.