Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 16. október 2003, kl. 10:34:13 (644)

2003-10-16 10:34:13# 130. lþ. 12.91 fundur 89#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 130. lþ.

[10:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt þegar svari eða meðferð þingmáls í þinginu er ábótavant að gera athugasemd við það strax og þess vegna er fullkomlega eðlilegt að þingmaðurinn, Þórunn Sveinbjarnardóttir, komi og geri forseta grein fyrir því að þetta er ekkert svar sem hér hefur borist á borð þingmanna.

Í tilefni af þeirri fyrirspurn sem þingmaðurinn bar fram og gagnrýni hennar á svarið, þá hlýt ég að vekja athygli á því hversu veikt það er að nota orðið friðargæsla um þá starfsemi sem við erum að taka þátt í. Sú starfsemi sem við tökum þátt í erlendis og hér er nefnd friðargæsla er t.d. nefnd ,,krigshantering`` á Norðurlöndunum og það má segja að hún sé í þremur þáttum. Í fyrsta lagi aðkoma okkar landa, til að mynda Norðurlandanna, þegar spenna er að myndast á svæðum og hugsanlegar aðgerðir til að taka þátt í að afstýra því að þessi spenna brjótist út sem átök, aðkoma eftir að átök brjótast út, og við höfum horft víða á það, og þátttaka við uppbyggingu í kjölfar átaka. En þetta orð ,,friðargæsla`` hér á Íslandi vekur þá hugsun í hugum manna að við séum bara að koma til að taka þátt og hjálpa fólki einhvers staðar til betra lífs. Þetta er miklu umfangsmeira og ég vek athygli á því að Ísland er m.a. orðið formlegur þátttakandi í Norcat. Það er fullkomlega óásættanlegt, eins og hv. þm. benti á, að koma hér með þær útskýringar sem birtast í svarinu á þskj. 163 og ætlast til þess að þingmenn meðtaki það að þetta sem hér er tilgreint sé hefðbundin friðargæsla. Ég tek undir þá gagnrýni sem þingmaðurinn kom hér með, herra forseti.